14.12.08

Sunnudagur til sælu

Ég get illa hætt að hugsa um tónleikana í gærkvöldi. Er að upplifa sumt aftur og aftur. Það er svo ótrúlega notalegt að vera til hafandi verið þátttakandi í einhverju svona sérstöku eins og svona vönduðum listviðburði. Ég veit að ég er ansi háfleygur núna og eflaust er eitthvað annað en Emilíana sem spilar þar inn í. Samt sem áður er ég á því að það er ekki sjálfgefið og það er alls ekki á hverjum degi sem maður fær svona konfektmola upp í hendurnar. Jæja, yfir í aðra sálma. Sit nú eins og kalltípan (held hann hafi verið hagfræðingur) sem var einu sinni í spaugstofunni, raðaði öllu í kring um sig og svona vildi hafa allt nálægt sér. Ég er að horfa á Silfur Egils, er að blogga, fylgjast með Facebook, kaffibollinn er á náttborðinu við hliðina á bókinnni sem hefur ekki verið snert síðan í nótt. Svo sagði Bjarni Haukur að karlmenn gætu bara gert eitt í einu - KJAFTÆÐI:)
Í nótt sofnaði ég seint eins og undanfarnar nætur en sofnaði þá líka mjög vel. Ég er búinn að ákveða að fara með Sifjurnar mínar, Laufeyju og Kamillu, á jólaball í MK núna kl. 15:00. Ætla að monta mig af stóreignunum mínum. Kann samt ekki við að biðja Bjarna og Betu að koma með á jólaballið ;-) Væri kannski aðeins of langt gengið i montinu. Svo eru það karlakórstónleikarnir í kvöld kl. 8. Eintóm sæla, varla að ég nenni að fara að lúlla uppi á spítala í nótt en ég set bara traust mitt á að allt gangi vel og að ég verði útskrifaður á morgun, eins og planað er, og þurfi ekkert að koma þangað fyrr en eftir jól (og helst áramót) á ný. Hugsa sér að nú er að líða að því að það verði ár síðan ég greindist . . . . . . "drrrrrr búmm" burtu með svona pælingar, þessar dagsetningar skipta engu máli. ÞAÐ ER DAGURINN Í DAG SEM SKIPTIR MÁLI!
Við fórum á jólaballið í MK og það var bara mjög skemmtilegt. Ásthildur hafði náttúrlega verið á fullu í undirbúningnum eins og hennar var von og vísa. Sá um kakóið (held ég hafi drukkið 4 bolla með kúfuðum rjóma, nammmmm) og svo bakaði hún helling af jólakökum, rúllutertum og piparkökum. Mé er alveg sama þótt eitthvað af bakkelsinu hafi haft viðkomu í kæli eða frysti, þetta er allt saman fyrirhöfn. Kamilla Sif tók jólasveininum af talsverðri varúð svona fyrst en þegar hún uppgötvaði að hann var búinn að gefa henni blikkandi dót í barminn þá leist henni strax miklu betur á kauða. Við skemmtum okkur öll ágætlega, Laufey Sif rifjaði upp kynni sín af Sigríði sem kenndi henni íslensku í Rimaskóla á sínum tíma og mér fannst æðislegt að hitta svo marga af vinnufélögunum við svona skemmtilegar aðstæður. Eftir jólaballið komum við við í Nettó í Hverafold. Vantaði kartöflur og eitthvað smáræði fleira í hrygginn sem Birna ætlar að hafa í matinn í kvöld. Við björguðum því og brunuðum heim. þá var maturinn að fara inn í ofn (kl. 17 )þannig að þetta lítur allt saman vel út. Rétturinn heitir Lamb de Provenge og eftir að hafa gætt mér á þessum rétti þá verð ég að segja, íslenska lambið rokkar. Frábær matur og Birna hitti á eitthvað spes þarna. Kjötið hafði staðið úti í sólarhring og ég veit að það skiptir miklu máli en það var eitthvað meira en það. Hryggurinn ásamt kartöflum, sætum kartöflum, gulrótum og eitthverju fleiru grænmeti + krydd provenge sem Birna átti ekki en setti eitthvað Nóatóns lambakrydd í staðin var sett í ofnfast fat í 30 mínútur á 250°C. Síðan sett á borðið með meðlæti eins og grænum Ora baunum og rauðkáli og sultu. ÞETTA VAR BAAARA GOTT. Svo er bara að drífa sig á Karlakórstónleikana. Bjarni Grétar og Elísabet komu heim rétt áður en við fórum og fóru náttúrlega beint að fá sér að borða. Þau voru mjög hrifin af tónleikunum og sama sögðu foreldrar Betu. Við fengum fallega sendingu frá þeim (skreyttan konfektkassa) með þakklæti fyrir miðana á tónleikana. Ég ætla að blogga um tónleikana í fyrramálið því ég fer beint upp á spítala á eftir og verð ábyggilega latur að fara að standa í að skrifa seint í kvöld.