6.12.08

"Bragðið gott fyrst en svo hrakar því"

Vaknaði þegar morgunmaturinn "kallaði á mig" kl. hálf níu. Þá hafði ég náð nokkrum blundum eftir erfiða nótt. Svaf lítið og stopult framan af bæði vegna niðurgangs og stöðugra verkja. Ég lét hjúkrunarliðið hafa hægðarprufu, þeim til lítillar gleði, mjög mikil gulueinkenni. Fékk aukamorfínskammt og aukasvefntöflu um hálf þrjúleitið. Auk þess hitastillandi töflur því hitinn var kominn upp undir 39°C. Svaf betur eftir þá innspýtingu en vaknaði þó nokkrum sinnum aðallega vegna niðurgangs sem var að kvelja mig fram undir morgun. Ég hafði greinilega samt náð að steinsofna í 3-4 klst. fram að morgunmatnum. Þá var mér farið að líða miklu betur og hafði góða list á hafragrautnum öðru meðlæti. Eftir morgunmatinn las ég hið frábæra "menningarrit" Séð og heyrt og hélt svo áfram að reyna að ná einbeitingu við að hlusta á hljóðbók sem ég hafði fengið lánaða hjá Kvennadeild RRKÍ sem er hópur elskulegra kvenna sem lánar út bækur og hljóðbækur á spítalanum. Allt í sjálfboðavinnu til styrktar spítalanum. Það hafði nú verið frekar fátæklegt úrval á vagninum sem ég skoðaði en ég ákvað að taka hljóðbók á 5 snældum (við erum að tala um gömlu góðu kassetturnar) sem heitir Kristinn í Björgun-Eldhuginn í sandinum, skrifuð af Árna Johnsen. Ég kláraði að hlusta á tvær snældur en ég er ákveðinn í að fórna eldhuganum fyrir Myrká eftir Arnald. Ég ætla ekkert að velta mér upp úr því hvort það er framsetningarformið, sagan, skáldið eða ritstíllinn sem veldur því að enn sem komið er held ég að mér henti frekar að lesa á gamla mátann heldur en að hlusta á snældur eða diska. Eftir hádegið kom Birna með fartölvuna svo nú er ég þegar farinn að blogga á fullu eða eins og ég hef nennu til. Hún kom líka með rakdótið svo ég skellti mér í sturtu og rakstur og var nú orðinn eins og nýr maður.
Friðbjörn læknir birtist óvænt (varla að við þekktum hann svona í borgaralegum klæðum;) Hann var nú bara svona að kíkja á uppáhalds sjúklinginn sinn hehe, spurði hvernig við hefðum það og ákvað að best væri að ég hætti að taka Xelota krabbameinslyfið. Þá er bara að byrja að byggja upp orku aftur á fullu.
Fjóla og Magni komu í heimsókn og færðu mér konfektbox í afmælisgjöf (fyrirfram) og gáfu okkur Birnu svo skýrslu fyrir gærkvöldið. Þau létu vel af jólahlaðborðinu en fyndið var að suma-klúbbshópurinn lenti svo eftir allt saman við hliðina á Klúbbi bakarameistara en við Birna höfðum verið í vandræðum með að velja með hvorum hópnum við ættum að sitja. Magni bar kveðju frá okkur til bakarahópsins og eftirfarandi vísu í leiðinni:
Ég baka oft köku sem brakar í,
bragðið gott fyrst en svo hrakar því.
Og eftir tvo bita,
er gott að vita,
að stutt er í næsta bakarí.
Þetta vakti auðvitað mikla lukku hjá bakarahópnum og fengum við sms-kveðjur til baka. Eins og búast mátti við voru þessir tveir vinahópar okkar síðasta fólkið úr salnum á Grand Hótel.
Þær mæðgur Laufey Sif og Kamilla Sif kíktu svo til okkar beint úr piparkökubakstrinum hjá tengdó. Það fór ekki milli mála að Kamilla Sif hafði tekið fullan þátt í skreytingunum og smökkuninni. Það sást á fötunum hennar. En mikið var gaman að fá þær í heimsókn:-)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli