10.12.08

Enn fleiri sýklar.... og Myrká

Ætlaði aldrei að sofna í gærkvöldi, klukkan var líklega orðin hálf tvö. Vaknaði um kl. 6. Dormaði reyndar talsvert eftir það með hléum. Morgunmaturinn var borðaður af sérlegri græðgi, hefur sjaldan bragðast betur þótt um væri að ræða sama matseðil og venjulega; hafragraut, LGG, ávöxt, ristað brauð með smjöri, marmelaði og osti og te. Sem sagt, óvenjugóð matarlist. Læknarnir á stofugangnum færðu mér þær gleðifregnir að til viðbótar við Klostredíum hefðu ræktast 3 bakteríur til viðbótar í blóðræktun hjá mér þannig að ég sé fram á viðbótar sýklagjöf í æð í u.þ.b. viku í viðbót. Þetta er nú að verða dálítill vítahringur en það þýðir svo sem ekkert að vera að velta sér upp úr þessu. Þetta verður bara að hafa sinn gang. Áætlunin með speglunina á morgun virðist ætla að standa, ég á að vera fastandi frá miðnætti og vonandi gengur þetta allt saman vel þ.e.a.s. að skola úr stálrörinu. Stuttu eftir að stofugangi lauk komu Bryndís og Hilmar? smitsjúkdómalæknar við hjá mér og fóru yfir allt þetta bakteríumál. Gerði nú lítið annað en rugla mig en ég bað þau um að koma þessum málum vel til skila til Ásgeirs Theódórs (sá sem sér um röramálin) og hans fólks. Þau voru sammála því og ætluðu að sjá til þess. Myrkáin rennur nú fram hjá mér með síauknum þunga eftir því sem spennan eykst, einungis 20 bls. eftir. Ég mun klára hana núna á eftir og þá tekur við Sólkross Óttars M. Norðfjörð. Guðfinna (mágkona) kom færandi hendi eftir hádegið. Hún færði mér mjólkurhristing sem er alltaf góður + flatkökupakka + 1 bréf af hangikjötsáleggi + eina öskju af smjörva. Nú er ég sem sagt orðinn sjálfbær með mat ef einhver leiðindi eru í boði. Ekki slæmt. Guffa sat hjá mér góða stund og spjallaði, hún var síðan á leiðinni . Guðlaug vinkona mín og vinnufélagi úr MK kom í heimsókn seinni partinn og bætti á sætindahliðina með Gullmolum frá Nóa (veit ekki hvernig maður endar ef svona heldur áfram;°) Það var gott að fá Gullu, kjafta svolítið og fá fréttir úr MK. Elli bróðir kom kl . 5 og spjallaði í klukkutíma, lætur þokkalega af verkefnum í AM en segir að bransinn kvíði janúar- og febrúarmánuðum. Maturinn kom á meðan Elli var hjá mér. Ekkert merkilegt, skinku / pastaréttur og rabbarbaragrautur með rjómablandi sem var reyndar fínn. Birna kom rétt fyrir klukkan sex, beint úr vinnunni og sat hjá mér í klukkutíma. Laufey Sif ætlaði að elda kjúklingabringur en Birna ætlaði svo að kíkja til Fjólu eftir matinn. Sigurjón bróðir kom við á leiðinni úr AM, var að vísu ekki beint að koma úr vinnunni heldur var hann að sprauta bíl fyrir Halla rafvirkja vin sinn. Fín aðstaða þar með sprautuklefa og allar græjur. Sigurjón stoppaði meðan dagvaktin var endurtekin og við horfðum á brot úr Stebba Hilmars, sveppaeitrunarþættinum ógleymanlega. Eftir að Sigurjón var farinn fór ég að slaka á, tölvast, lesa o.þ.h. "Fastandi"skiltið var hengt upp til að minna liðið á að éga má hvorki fá vott né þurrt frá miðnætti. Myrká liggur nú í valnum og eins og alltaf blandast tilfinningar þegar góð bók klárast. Gleði yfir að endirinn kemur í ljós, jafnvel þó hann hann sé stundum loðinn og óljós og svo vonbrigði vegna þess sem ósagt var og vegna þeirra viðbótarupplýsinga sem maður vildi svo gjarnan fá. Þessi bók stendur, að mínu mati, fullkomlega undir því að flokkast sem "góður" Arnaldur.
Nú hef ég rifið plastið utan af Sólkrossinum (ekki eftir neinu að bíða) merkt mér bókina og hefst nú lesturinn........

Engin ummæli:

Skrifa ummæli