13.12.08

Mamma mia, kominn Laugardagur;-)

Mamma mía!!! Það var orðið em ég sofnaði með í höfðinu í nótt:-) Fékk sms frá Birnu minni kl. rúmlega 12:00. Þá var hún komin til Brynju vinkonu og þær sátu með gott í glasi og horfðu á diskinn Mamma Mía. Helv var ég ánægður með þær. Hefði náttúrlega verið skemmtilegast að vera með þeim. Atli hafði skellt sér í . . hmmm hvernig var sagan aftur . . . upp í hesthús. Ég vissi ekki að Atli ætti hesta :-))))) svona geta sögurnar orðið óóóótrúlegar. Ég hef greinilega sofnað með ljósin kveikt því þannig vaknaði ég um kl. 5 í morgun með bókina á bringunni. Gat lítið sofnað eftir það. Fékk morgunmatinn (mína uppáhaldsmáltíð) kl. 8:45 og eins og venjulega spændi ég hann í mig með bestu lyst. Fór aftur upp í rúm með bókina en fann að ég var mjög syfjaður enda datt ég út af fljótlega. Birna hringdi, hún var bara hress eftir gærkvöldið, hafði setið til kl. 3 hjá Brynju og Atla. Nánari útlistun kom á hesthúsamálinu. Auðvitað tengdist það Árna Birni vini Atla, hann tengist e-h hestum og/eða hestamönnum. Atli hafði meira að segja tekið fram betri svuntuna þegar hann kom heim og steikti egg og beikon handa stelpunum, svona á að gera þetta. Eftir að við Birna kvöddumst hringdi ég í mömmu til að láta hana vita stöðuna. Hún var auðvitað alsæl með að allt væri svona í lukkunnar velstandi. Alltafa gaman að hringja góðar fréttir til hennar, verður alltaf svo innilega glöð þessi elska. Ég var mældur (36,8:-) og allar aðrar tölur eftir bókinni líka svo þetta lítur allt saman vel út. Helgi (vakthafandi krabbameinslæknir) kom í heimsókn til að ræða hugsanlega útskrift eða heimferðarleyfi. Hanna hallast að því að ég fái að fara heim í leyfi yfir helgina með það í huga að útskrifast á mánudag ef allt gengur vel. Ég er sáttur við það (öryggið á oddinn;). Þannig að nú er allt komið í gang með undirbúning. Fara yfir lyfjamálin o.s.frv. jibbí. Aldrei þessu vant var maturinn frábær. Engu líkara en liðið ætli að tryggja að ég fara strax að sakna spítalans. Hjúkkan mín var að fara frá mér rétt í þessu. Ég má sem sagt fara heim núna og á að koma aftur á sunnudagskvöld og sofa hér aðfararnótt mánudags. Svo er stefnan sett á að útskrifa mig á mánudaginn eins og áður hefur komið fram í þessum þætti;-) Ég er kominn með öll lyfin skipulega pökkuð og merkt. Nú er ég að fara að pakka niður, Laufey Sif ætlar að sækja gamla kallinn. Hún kom stuttu seinna og nú er afi að monta sig og labbar með Kamillu um alla deildina. Hún vekur mikla lukku eins og við er að búast.
Þegar heim var komið var sest við eldhúsborðið og haldið áfram að borða Bakaríisdót og kjafta saman, hvað er betra. Birna þurfti að fara í búðarstúss svo ég fór að snúllast eitthvað, setja orðabækurnar inn á fartölvuna og svo lagði ég mig í 3 korter. Við ákváðum að bjóða foreldrum Betu á aðventutónleika Karlakórsins af því ég veit að þau hafa gaman af þeim. Valdi gat tekið frá fyrir mig miða og Bjarni Grétar fór fyrir mig og gekk frá þeim málum. Reyndar asnaðist ég til að senda hann í Langholtskirkju í staðin fyrir Hallgrímskirkju, maður er svo sannarlega á lyfjum. Hef ekki heyrt í Bjarna síðan en vona að þetta hafi allt saman reddast. Við Birna drifum okkur af stað út í Háskólabíó til að ná Emilíönu á réttum tíma. Fólk var að streyma að og allt að fyllast. Við hittum Sigríði kennara úr MK, kenndi reyndar Laufeyju í Rimaskóla á sínum tíma, hún minnti mig á jólaball MK á morgun kl 15. Kannski við skellum okkur, aldrei að vita. Kastaði kveðju á Tonny, gamla kunningja úr Álfheimabakaríi, þar sem hann straujaði ábúðarmikill fram hjá mér í upphafi tónleika. Lay Low hóf tónleikana með upphitun 20 mínútum of seint. Hún spilaði í hálftíma og náði að kynda vel upp í mannskapnum. Hún er gríðarlega mikil orginal tónlistarkona sem á auðvelt með að hrífa mann með sér.
Það sem hins vegar kom dálítið á óvart var að þegar hún var horfin af sviðinu var tilkynnt 20 mínútna hlé þar til Emilíana byrjaði. Það var greinilega bara gert í þeim tilgangi að selja léttvín og bjór. Svo sem allt í lagi ef tímaplanið hefði staðist en ég játa á mig smá pirring þegar pásan var farin að nálgast 40 mínútur. En þá steig drottningin á svið ásamt föruneyti sínu og byrjaði að spila eftir smá fát og fum í uppstillingu. Eftir það var ekki aftur snúið. Allur pirringur hvarf eins og dögg fyrir sólu og tónlistin greip mann heljartökum. Kátínuleg, nánast barnsleg, sviðsfram-koma Emilíönu gerði það einnig að verkum að þrátt fyrir að tónlistin væri heildræn og sinfónísk á köflum þá varð sjálft "showið" aldrei yfirdrifið á nokkurn hátt. Hún sagði sögur sem henni virtust detta í hug á staðnum, gerði grín að bandinu og vinum sínum og ruglaði jafnvel innkomur og lagaval á köflum. Hugsanlega hefur einhverjum þótt þetta draga úr fullkomnun á yfirbragði tónleikanna en fyrir mér undirstrikaði þetta hvað hún hefur tónleikaformið í raun vel á valdi sínu. Bandið er stórgott og fremstur meðal jafningja er Sigtryggur nokkur Baldursson sem fer algjörlega á kostum á slagverkinu. Sannkallaður virtuos sem gæðir lög Emilíönu því sem þarf án þess að gera nokkurn tíman of mikið. Við hittum Atla og Þórdísi, vinafólk Sigga og Guffu, bæði fyrir og eftir tónleika og ekki var annað að heyra en þau væru sammála okkur í hrifningunni.
Kom við á 11-E eftir tónleika og lét stelpurnar taka nálina úr handleggnum á mér þvú bæði var mig farið að verkja í legginn og svo voru umbúðirnar ansi bosmamiklar. Eftir það brunuðum við niður á Bæjarins Bestu og fengum okkur þjóðarrétt íslendinga, eina með öllu og kók. Það er að segja þetta fékk Birna sér en ég fékk mér tvær með tómat, sinnep og steiktum og kók (reyndar deildum við kókglasinu svo öllu sé nú haldið til haga). Á leiðinni heim heyrði ég í Atla vini, rammhásum, sá var ekki hress með Frostrósatónleikana í Laugardagshöllinni. Sagðist hafa stungið af úr húsi þegar klukkutími var eftir , farið út í bíl og hímt þar, þar til Brynja kom. ALDREI, ALDREI, ALDREI aftur skal ég láta draga mig í svona vitleysu sagði hann. Ekki einu sinni þótt ég fái greitt fyrir það. Ég er nú reyndar ekki viss um að hann sé að meina þetta síðasta;) En allavega fór ekki á milli mála að honum hafði slegið illilega niður við þetta brölt sitt. Nú er Birna farin að hrjóta svo vært og sætt við hliðina á mér að ég ætla að láta þetta duga í kvöld. Enda hætt að vera eitthvað vit í þessu röfli hvort sem er.