11.12.08

Að skola út mótorinn . . á skurðgröfu . . fyrir jól"

Náði að lesa 20 bls. í Sólkrossi Óttars áður en ég fór að sofa í gærkvöldi. Svaf ágætlega. Vaknaði með 37,7°C sem eru ekki góðar fréttir þar sem ég á að fara í speglun og fleira skemmtilegt á eftir. Reyndar var aðstoðarlæknir að abba fram hjá mér rétt í þessu. Hann sagðist EKKI halda að þessi hiti muni tefja málið "jibbí" Fagnaði full snemma, var sóttur og keyrður niður í speglun. En Ásgeir vill ekki taka mig inn fyrr en seinna í dag (seinastan í röðinni vegna smithættu:-( Up we vent again. Þetta verður einhverntíma eftir kl 14:00. Búinn að lesa fréttablaðið, er að byrja á Mogganum og mesta hættan er að ég verði orðinn svo svangur að ég éti blöðin. Nú væri gott að geta laumast í flatkökubirgðirnar sem ég á frá henni Guffu í ísskápnum í setustofunni namminamm. Mamma kom til mín í hádeginu. Var að koma beint úr tásupússi hjá Eygló og var alsæl. Sat hjá mér langleiðina til klukkan tvö. Þóra hans Árna kom við hjá mér, var á leiðinni í viðtal hjá Friðbirni. Frábært hvað hefur gengið vel hjá henni undanfarið, hún er laus við allan krabba, þarf bara að koma í eftirlit. Sama með Árna eftir því sem ég best veit, þarf bara að koma í eftirlit. Þóra átti tíma kl. hálf tvö þannig að hún kvaddi okkur en um sama leiti kom Ásgeir Theódórs rörasérfræðingur askvaðandi og eitthvað var hann verulega stressaður. Ég fékk á tilfinninguna að það væri eitthvað farið að þrengjast um aðgerðina mína en þegar ég spurði hann lofaði hann að reyna allt sem hann gæti til að koma mér að. Það endaði svo auðvitað þannig að kl. hálf þrjú komu læknir og hjúkka og tilkynntu mér að spegluninni hefði verið frestað til þriðjudags:-( Skýringarnar voru það mikið út og suður að ég nenni ekki einu sinni að hafa þær eftir enda verð ég bara pirraður aftur ef ég fer út í þá sálma. En hafi ég verið pirraður þá veit ég ekki hvaða orð ég á að nota um hana Birnu mína þegar ég hringdi í hana og sagði henni tíðindin. Hún var alveg öskureið og ég átti alveg eins von á henni akandi á skurðgröfu hingað niður eftir. Ég reyndi nú að róa mig niður enda vinnst svo sem ekkert við að hanga í fílu. Ég fékk þó að borða og nýtti mér það sko óspart, raðaði í mig ristuðu brauði og tei og óð svo í flatkökubirgðirnar mínar og borðaði þar til ég var að springa. Friðbjörn (minn mikli eðallæknir) kom við hjá mér kl. 5 og var ekki par hress með að frétta að spegluninni hefði verið frestað. Hann spurði hvort ég væri til í að vera fastandi í nótt og hann myndi sjá hvort hann gæti gert eitthvað með morgundaginn varðandi speglun. Þá er hann með annan lækni (Einar) í huga. Það var greinilega mjög þungt í honum og hann ekki sáttur með þessa þróun mála. Ég sagðist að sjálfsögðu vera til í að fasta og hann bað mig að hringja í sig kl 9 í fyrramálið ef ég væri ekki búinn að heyra í honum þá. Birna mín kom úr vinnunni, þreytt og líka bara pirruð yfir þróun mála. Við erum að vona að eitthvað komi út úr tilraunum Friðbjarnar með að redda tíma fyrir mig á morgun. Það væri frábært að koma þessu frá fyrir jafnvel þótt það setji eflaust mark sitt eitthvað á helgarheilsuna hjá mér. Ég skellti mér í sturtu og rakstur þegar Birna var farin og var eins og nýr maður á eftir, þvílíkur munur;-) Þegar ég kom úr sturtunni, hreinn og strokinn, var Siggi bró mættur á setustofunni. Hann þóttist ekki vera búinn að bíða lengi en mig grunar að það hafi nú verið talsverð stund. Hann kom með viðbót á lúpínuseiðið og brokkolíknippi. Að auki kom hann með 2 cd-diska sem einhver heilsugúrú hefur gefið út, ætla að kíkja á þetta við tækifæri. Við Siggi áttum langt samtal um heilsumálin í kjölfarið, mjög áhugavert samtal reyndar þar sem víða var farið og snert á ýmsum flötum. Margt höfum við rætt áður en tekið var á mörgu nýju. Þetta er þrælskemmtilegt umræðuefni og í grunninn held ég að við séum mjög sammála. Honum er mikið niðri fyrir hvað varðar áhrif lyfjaiðnaðarins og fleiri hagsmunaaðila á heilbrigðiskerfið og læknastéttina.

1 ummæli:

  1. Eins og það er nú leiðinlegt að það hafi ekki verið hægt að drífa þetta af í dag, þá held ég að ég hafi sjaldan hlegið jafn mikið yfir hugsuninni af mömmu öskureiðri á skurðgröfu:D kv. Bjarni Grétar :)

    SvaraEyða