7.12.08

Frumsamið lag í afmælisgjöf

Jæja þetta var annasamur dagur en frábær í alla staði. Ég vaknaði eldhress kl. 6 í morgun, hafði þá sofið í einum blundi frá kl. rúmlega 1. Mér var ómögulegt að sofna aftur fyrr en eftir morgun-matinn, dottaði þá aðeins. Ég var búinn að fá sýklalyfin mín, töflubirgðir fyrir eftirmiðdegið og þar með orðinn klár í slaginn þegar Birna kom með sparifötin klukkan hálf ellefu. Við komum í kirkjuna rétt fyrir ellefu, u.þ.b. þegar kórinn var að stilla sér á pallana. Messan var hátíðleg, athygli vakti góð kirkjusókn. Karlakórinn sá um messusvörin ásamt söfnuðinum og söng sálmana úr messuskránni. Að auki söng kórinn í tveimur hlutum nokkur falleg jólalög sem hljómuðu voldugt og fallega í þessari stórfenglegu kirkju sem kennd er við Hallgrím Pétursson. Að messu lokinni fór talsverður tími í að heilsa félögunum og spjalla. Siðan ákváðum við að aka með fram Öskjuhlíðinni þar sem Vaskur fékk að hlaupa um í smá stund. Hann hafði verið mjög glaður að sjá mig og var ekki minna glaður þegar hann hitti Tobba, hundinn hans Tinna (sama tegund og er í Tinnabókunum:-) Eftir að Vaskur hafði hlaupið nægju sína og skilað frá sér tilheyrandi, röltum við Birna inn á Hótel Loftleiðir. Af tillitssemi við aðra gesti skildum við samt Vask eftir í bílnum.
Þetta er orðinn nokkurra ára siður hjá Gammel Dansk klúbbnum að hittast á þessum stað á þessum sama sunnudegi (þegar kórinn syngur aðventumessuna). Það er líklega óþarfi að taka það fram en það var að frumkvæði Marentzu Paulsen að hittast þennan dag í "ekte dansk julefråkost". Marentza sér alltaf um að útskýra fyrir okkur alla réttina enda algjör sérfræðingur þar á ferð. Það er auðvitað þannig að ekki er alltaf full mæting. Það getur alltaf eitthvað komið upp á hjá fólki og ekkert við því að gera. Í þetta sinn voru 3 fjarverandi, 2 vegna veikinda og einn í námsferð erlendis.
Að venju eyddum við fyrsta klukkutímanum í síldarréttunum sem eru sérgrein Marentzu. Svo eru það hinir forréttirnir, lax, paté o.fl. namminamm.
Valdi gaf undirrituðum, í tilefni afmælisins á morgun, frumsamið lag sem hann hefur látið Pétur Hjaltested setja á CD og tileinkað mér. Að auki fylgdi annar CD með laginu "kannsk´er ástin" sem þeir feðgar, Valdi og Tryggvi Valdimarsson syngja eins og englar. Þessi vinarhugur frá Valda og Þuru snerti mig djúpt enda lagið frumsamda mjög fallegt (það var auðvitað sett í B&O um leið og heim var komið) og sýnir vel, sem ég vissi nú fyrir, hversu lunkinn tónlistarmaður Valdi er. Hann spilaði sjálfur lagið inn á diskinn en líklega hefur Pétur séð um Hljómborð sem studdi við á köflum.
Við sátum lengi við matarborðið á Loftleiðum eins og venja er á danskan máta. Að vísu hafði Marentza fengið brottfaraleyfi þar sem hún stendur í stórræðum í Árbæjarsafni með kaffihúsarekstur eða eins og hún kallar framtakið "gömlu litlu jólin". Hún átti von á u.þ.b. 1000 manns í dag í kakó og vöfflur:) Klukkan var rúmlega 3 þegar við hin héldum södd og sæl frá Loftleiðum. Mig langaði til að kíkja aðeins við heima í Berjarimanum áður en ég færi á spítalann svo við Birna ásamt Vaski brunuðum í Grafarvoginn. Það var gott að koma heim og smella kossi á liðið. Eins og áður segir var hlustað á Geisladiskana frá Valda og Þuru og dáðst að. Eftir smá slökun og fataskipti skutlaði Birna mér á spítalann. Klukkutíma seinna var borinn fram matur sem leit reyndar vel út (kjúklingur) en ég hefði ekki getað komið niður einum bita svo ég afþakkaði.
Siggi bróðir kom í heimsókn um klukkan átta. Hann kom með lúpínuseyði handa mér en það var búið. Hann kom líka með ávexti og mjólkurhristing. Svo kom hann með piparkökukerlingar sem Aldís Agla hafði skreytt alveg rosalega fallega. það var gott að fá Sigga og við spjölluðum mikið. Ég var farinn að hafa áhyggjur af að við værum að trufla Steindór herbergisfélaga minn en ég held að það hafi nú ekki verið svo. Siggi fór um kl. 10 og um svipað leiti fékk ég lyfin mín.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli