23.1.03

Kynning


Komið þið sæl. Ég heiti Ingólfur Sigurðsson og starfa sem fagstjóri og kennari við bakaradeild Hótel- og matvælaskólans í MK. Ég er fæddur 8. desember 1960, er giftur Birnu Bjarnadóttur viðskfr. og eigum við tvö börn, stúlku (f. ´88) og dreng (f. ´90). Ég lærði bakaraiðn í Álfheimabakaríi og útskrifaðist frá IR 1983. Meistararéttindi í bakstri 1985. Starfaði í greininni til 1996, þar af við rekstur á eigin bakaríi í 8 ár. Á þessum tíma starfaði ég mikið að ýmsum félagsmálum bakara og geri raunar enn. Má þar nefna stjórnarsetu í Landssambandi bakarameistara, stofnfélagi Klúbbs bakarameistara, prófdómari í sveinsprófsnefnd, sit nú í nemaleyfisnefnd, fagnefnd og fræðslunefnd bakara. Vorið 1996 ákvað ég að söðla um og tók að mér að byggja upp bakaradeild í hinum nýja Hótel- og matvælaskóla sem þá var verið að byggja í Kópavogi. Hóf svo kennslu þar um haustið. Uppeldis- og kennslufræði lauk ég frá KHÍ vorið 2000. Ég hef orðið var við að sumum af kollegum mínum í verknáminu finnst langsótt að innleiða tölvunotkun í verknámskennslu. Ég er því ósammála og tel mikla möguleika ónýtta þar. Síðastliðinn vetur gerði ég tilraun með að kenna fagfræði bakara að hluta til í gegnum WebCt og var mjög ánægður með árangurinn. Þess utan er ég spenntur fyrir námsefnisgerð á margmiðlunarformi auk þess sem ég hef áhuga á að bjóða nemendum á landsbyggðinni að ljúka bóklegum hluta námsins í fjarkennslu. Ég hef lokið nokkrum námskeiðum tengdum tölvunotkun s.s.: Dreifmennt, tölvustudd kennsla, Dreamwiever 1, Dreamwiever 2, WebCt 1, Director o.fl. Bestu kveðjur Ingólfur Sigurðsson is@mk.is
Bloggari: Ingólfur

Kaka ársins - úrslit

Set hérna að gamni myndir af þrem efstu kökunum í keppninni um köku ársins. Veit ekki hvernig myndirnar koma út eftir að ég fiktaði í þeim. Kemur í ljós....


Vinnings kakan
2. sæti 3. sæti

19.1.03

Kaka Ársins!

Lítið orðið ágengt í vinnu minni varðandi námið í dag. Dagurinn fór í dómarastörf í vali á "köku ársins" fyrir Landssamband bakarameistara. Kakan verður í boði í öllum helstu bakaríum landsins á konudaginn. Eitt af þessum sjálfboðaliðaverkefnum sem maður tekur að sér eingöngu ánægjunnar vegna. Ég tek mér það bessaleyfi að upplýsa lykilorð vinningskökunnar þetta árið þar sem það hljómar svo fjarstæðukennt. Kakan er kennd við "Fisherman´s friend"!!! Já, ég veit að þetta hljómar skingilega en ég get lofað ykkur að kakan er guðdómlega góð. Höfundur hennar er Ásgeir Sandholt og er þetta annað árið í röð sem hann skapar köku ársins. Ég hef átt í erfiðleikum með þessa bloggsíðu eftir að ég reyndi að breyta útliti síðunnar með því að setja inn myndir o.fl. Ég hef greinilega eitthvað ruglað uppsetningunni eins og mér einum er lagið :-( vona að þið eigið góða helgi. Kveðja Ingólfur
Bloggari: Ingólfur

17.1.03

Að ná tökum á tækninni

Meira hvað það getur vafist fyrir manni að setja upp og lagfæra svona fyrirbæri eins og bloggsíðuna. Búinn að margreyna að skipta um template en gengið illa. Þrautalendingin var að reyna að fríska upp á það sem ég virðist vera “stuck” með. Dálítið maus, a.m.k. meðan maður kann ekki almennilega á þetta. Þetta hlýtur að koma með æfingunni. Búinn að vera erfiður dagur enda búin að hlaðast upp verkefnin meðan ég var “að leika mér í skólanum” eins og samkennarar mínir orða það :-) Góða helgi!

Bloggari: Ingólfur @ 1/17/2003 05:07:00 PM

16.1.03

Erum við, sem aðhyllumst upplýsingatækni í kennslu, sértrúarsöfnuður.

Í dag var síðasti dagur staðbundinnar lotu í KHÍ. Þar messaði yfir okkur dugmikið hugsjónafólk um UST eins og “tjona”, “sibba”, Salvör og fleiri. Áhugavert og vel fram sett efni um kennslufræði, hugbúnað og vélbúnað en meðan ég hlustaði velti ég fyrir mér þeim veruleika sem flest okkar búum við í vinnu okkar sem kennarar. Hversu hyldjúp gjá sem mér virðist vera á milli þeirrar framtíðarsýnar sem þetta fólk og sjálfsagt flest okkar viljum sjá og þess miðstýrða menntakerfis sem við búum við. Samræmd próf í grunnskólum og áform um samræmd próf í framhaldsskólum. Innra (og ytra) mat í skólum sem byggist eingöngu á megindlegum niðurstöðum. Hvernig er hægt að sætta þessi sjónarmið við hugtök eins og virkt, nemendamiðað samvinnunám meðan stjórnkerfi menntakerfisins virðist vera ofurselt prófafíkn. Svartsýnn maður hlýtur að búast við hörðum árekstri milli þessara tveggja ólíku póla í náinni framtíð. Ég ætla þó að vera bjartsýnn og vona að hægt og sígandi mýkist áherslur í ráðuneyti voru. Aldrei að vita nema einhver úr “söfnuðinum” verði einhvern tíma menntamálaráðherra og þá...............:-)
Bloggari: Ingólfur @ 1/16/2003 11:03:00 PM

15.1.03

Blogga, blogga, blogga .....

Nú er runninn upp sá dagur að maður slæst hóp hinna fjölmörgu sem "blogga" á netinu. Þessi bloggsíða mín er partur af framhaldsnámi mínu við KHÍ og áfanginn heitir Nám og kennsla á netinu. Fjörlegar umræður hafa verið í tímanum um "tilgang" bloggs yfir höfuð.