11.2.04

Fjölmiðlafár

Afar athyglisvert hefur verið að fylgjast með fjölmiðlum undanfarna viku. Forstöðumaður Samfés sem eru samtök félagsmiðstöðva á Íslandi þurfti að "svara til saka" fyrir stjórnendum Kastljóss síðastliðið mánudagskvöld vegna þess að Samfés hafði sagt upp samningum við hljómsveitina Mínus varðandi spilamennsku á unglingadansleik. Tilefni uppsagnarinnar var blaðaviðtal í erlendu blaði þar sem Mínus-meðlimir upplýstu viðhorf sín til fíkniefna og fíkniefnanotkunar á vægast sagt sláandi hátt. Sem foreldri tveggja unglinga finnst mér ákvörðun Samfés til fyrirmyndar enda standa samtökin fyrir vímulausum skemmtunum og eðlilegt að velja skemmtikrafta sem geta talist heilbrigðar fyrirmyndir. Ég spurði mína unglinga hvað þeim fyndist um ákvörðun Samfés og þeim fannst greinilega mjög eðlilegt að neita þeim um að spila á umræddum dansleik. Þess vegna kom mér mjög á óvart hversu harkaleg viðbrögð stjórnenda Kastljóss voru gagnvart forstöðumanninum. Þau töluðu um tvískinnung Samfés þar sem samtökin höfðu boðið Mínusmönnum að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að umrætt blaðaviðtal væri ekki sannleikanum samkvæmt. Mér fannst hins vegar fullkomlega eðlilegt að fara fram á slíka yfirlýsingu, og í raun vel boðið af hálfu Samfés, þar sem algengt er að hljómsveitir markaðssetji sig með ýmsum "skreytingum" sem e.t.v. eiga ekki alltaf við rök að styðjast. Í kjölfar þess að hljómsveitarmeðlimir neituðu að skrifa undir yfirlýsinguna, en voru tilbúnir að skrifa undir aðra þess efnis að þeir ætluðu ekki að neyta eiturlyfja á umræddum dansleik (góðir strákar!), rifti Samfés samningum við hljómsveitina enda í raun ekkert annað í stöðunni ef litið er til þess sem samtökin standa fyrir. A þáttastjórnendur Kastljóss, sem er fréttatengdur þáttur í sjónvarpi allra landsmanna skuli taka svo augljósa afstöðu gegn ábyrgri afstöðu Samfés í jafn mikilvægu máli vekur upp spurningar um dómgreind þeirra og siðferði. Umræddur þáttur var talsvert í umræðunni á mínum vinnustað sem er fjölmennur framhaldsskóli og þar þykja forstöðumenn Samfés hafa tekið hárrétt á málum.

8.2.04

Ráðstefna í MK

Mikið búið að vera í gangi undanfarið og enginn tími fyrir bloggið. Mikil ráðstefna um tölvumál var haldin í MK síðastliðinn þriðjudag. Lára Stefánsdóttir (UST-gúrú) hefur verið ráðin bakhjarl kennara í fartölvumálum og verður án efa til að efla fartölvumál skólans. Undirritaður flutti erindi á ráðstefnunni udir yfirskriftinni "Fartölvur í verknámi - AF HVERJU EKKI?" Held það hafi tekist bara bærilega. Í heild lukkaðist þessi ráðstefna mjög vel, stóð allan daginn og skilaði að mínu mati heilmiklum árangri. Kennarar MK virtust ánægðir með framtakið og eru fullir áhuga eftir mikla niðursveiflu gagnvart UST og fartölvum á síðustu haustönn. Endalaus vandræði vegna vírusa og bilana í innra neti skólans ollu miklum pirringi meðal nemenda og kennara en allt hefur gengið mun betur nú á vorönninni.
Bloggari: Ingólfur

30.1.04

Eru unglingar metnaðarlausir?

Við hjónakornin fórum á fund í Rimaskóla í gærkvöldi sem foreldrar 10. bekkinga skólans voru boðaðir á. Tilefnið var komandi samræmd próf, vorferðalag o. fl. Greinilegt var að kennarar skólans telja nemendur ekki vera að leggja nógu hart að sér við námið. Metnaðar- og áhugaleysi, jafnvel vonleysi voru orð sem þeir notuðu til að lýsa almennu ástandi í 10. bekk. Ég hef heyrt kennara í MK nota svipuð lýsingarorð um marga nýnema skólans. Sumir segja að árgangurinn nú sé mun áhuga- og metnaðarlausari en sá sem innritaðist haustið 2002. Kannski er það rétt, kannski ekki. Ég er ekki sannfærður um að hér sé einhver þróun á ferðinni en það hlýtur þó að vera ástæða til að staldra við og rannsaka hvort það geti verið. Ég var nýlega að lesa grein sem birtist í tímariti í Bandaríkjunum og fjallar um dulin skilaboð fjölmiðla sem með tilkomu nýrra miðla hafa fengið stóraukið vægi og áhrif. Markhópurinn er ekki síst börn og unglingar. Talað var um eins konar heilaþvott heillar kynslóðar gegnum sjónvarpsþætti, kvikmyndir, myndbönd, tölvur, auglýsingaskilti o.fl. Greinin var mjög sláandi og ég hef hugsað mikið um þetta og velti þessu mikið fyrir mér eftir umræddan fund í gærkvöldi. Ég upplifi mína tvo unglinga (14 og 16 ára) horfa mjög mikið á sjónvarp og myndbönd auk þess að nota tölvur mikið til samskipta o.fl. Ég, sem foreldri, hef tekið eftir a.m.k. einni mjög áberandi breytingu á erlendri og íslenskri sjónvarpsþáttagerð sem ég hef áhuga á að velta hér upp. Börnin mín (sérstaklega strákurinn minn, 14 ára) sitja límd fyrir framan skjáinn yfir þáttum eins og Fear factor, Survivor, American Idol, Super model of the world og hvað þetta heitir nú allt saman að ógleymdum innlendum þáttum eins og popTv og svínasúpu. Hver er boðskapur þessara þátta? Í fyrsta lagi persónumótun og dýrkun ákveðinna persónueinkenna. Allir eiga að vera fallegir, spengilega vaxnir, sterkir og áræðnir, gáfaðir, syngja og dansa gullfallega o.s.frv. Ég held að það sé veruleg hætta á að unglingar sem festast í þessari veruleikamótun upplifi hlutina þannig að ef þeir uppfylli ekki þessar kröfur þá hafi þeir "tapað" eins og allir þeir sem ekki eru sigurvegarar í ofantöldum þáttum. Annar boðskapur sem er áberandi og þá ekki síst í íslensku þáttunum er algjört virðingarleysi gagnvart öllu og öllum. Öllum góðum gildum er gefið langt nef, ekkert er heilagt og allt er látið flakka. Því hortugra, því betra. Því klámfengnara, því flottara. Því ruttalegra, því meira "töff". Getur verið að það sé eitthvað til í því að áhrif þessarar holskeflu miðlunar séu jafn alvarleg og höfundur greinarinnar heldur fram? Ég þykist vita að fólk hafi mismunandi skoðanir á málinu en ég held að allir geti verið sammála um eitt. Á örfáum árum hefur "sársaukastuðullinn" hvað varðar hátterni og orðbragð í fjölmiðlum snarhækkað. Enginn kippir sér upp í dag við hluti sem hefðu valdið andköfum og hneykslan fyrir nokkrum árum. Í stuttu máli virðist mér að í ákveðnum þáttum sé megin inntakið að viðhorfið gagnvart manneskjum og málefnum eigi helst að vera "FUCK YOU, I DON´T GIVE A SHIT"!

29.1.04

Nemakeppni

Nemakeppni Kornax í bakstri. Nú er búið að ákveða fyrirkomulag hinnar árlegu nemakeppni Kornax í bakstri. Forkeppnin verður haldin í bakaradeild helgina 28. - 29. febrúar. Úrslitakeppni (5 keppendur) verður svo haldin á sama stað 11. og 12. mars. Laugardaginn 13. mars verður opið hús í MK (MK dagurinn) og þá verður úrslitaborðin til sýnis fyrir gesti og þar munu bakaranemar einnig gefa gestum tækifæri á að smakka margs konar góðgæti auk þess að sýna skreytingar á tertum o.fl.
Bloggari: Ingólfur

Náttfatadagur

Nú er náttfatadagur í MK og fremur fjölskrúðugt á göngunum. Kennarar og nemendur mættu í skólann í morgun í hinum ýmsu gerðum náttfata. Sumar konur höfðu greinilega vaknað heldur seint því þær mættu með rúllurnar í hárinu :-) Þessi uppákoma er á vegum nemendafélagsins og gengur út á það að öllum sem mæta í náttfötum er boðið í morgunverðarhlaðborð í frímínútunum kl. 9:45. Stjórn nemendafélagsins fékk bakaradeildina til að leggja til bakkelsið og í þessum rituðu orðum eru bakaranemarnir að bera niður í matsal rjúkandi rúnnstykki og vínarbrauð. Skemmtileg tilbreyting í skólastarfið.
Bloggari: Ingólfur

27.1.04

Lotan búin.

Jæja, þá er lokið þessari staðbundu lotu í kennó. Margmiðlun í námi og starfi heitir áfanginn og kennarar eru lektorarnir Salvör Gissurardóttir og Stefán Jökulsson. Því miður missti ég af ansi stórum hluta gærdagsins þar sem ég var fastur í kennslu en þá var farið í notkun forritanna CoolEdit sem er hljóðvinnsluforrit og MovieMaker sem er videó klippiforrit. Í dag var farið í Flash sem er mikið notað við hreifimyndagerð og Mediator sem er að ýmsu leyti hliðstætt forrit en mun einfaldara og aðgengilegra en Flash sem er "professional" forrit úr Macromedia fjölskyldunni. Þessi lota var mjög gagnleg og áhugaverð en mér þótti verst að missa af hljóðvinnslunni því það litla sem ég sá var mjög spennandi. Nú er bara að bretta upp ermar og fara að vinna verkefnavinnuna. Ég er mjög feginn að ég skráði mig á fyrstu umsjónarlotuna í leshringnum hjá Sólveigu því ég er búinn að setja inn mitt innlegg og get einbeitt mér að þessu fram að helgi.
Bloggari: Ingólfur