16.12.08

Aðal- og aukaleikarar - "Annars verður mér að mæta!"

Jæja sit hér við morgunverðarborðið kl. 9. og blogga (hljómar eitthvað svo cool). Birna og Laufey Sif farnar í vinnu og Kamilla Sif komin til dagmömmu. Carl kominn á ról, er að undirbúa sig við að fara að að læra undir rekstrarfræði sem er síðasta prófið hans í HÍ (allt tekur enda) Prófið er á fimmtudaginn og hann er að fara að ljósrita eitthvað sem hann vantar fyrir undirbúninginn. Bjarni Grétar er sofandi (var í einhverju pókerspili með vinum sínum fram eftir í nótt). Hann er með það verkefni á höndum í dag að mála gestasalernið sem ekki hefur verið málað síðan af fyrri eigendum hússins okkar. Þess vegna ætla ég ekki að gefa honum nema svona til kl. 10 - 11 í bælinu;-( Ég veit ég er alltaf að endurtaka mig en það er ólýsanlega notalegt að vera hérna heima í rólegheitunum. Kalli er kominn niður í morgunmat, fínt að fá félagsskapinn. Ég var að hugsa mikið um fólk, vinskap o.fl. í gærkvöldi þar sem ég sofnaði frekar seint. Önnu Sigríði varð (í gær) tíðrætt um tengslanetið okkar, þ.e.a.s. hvað við eigum mikið af góðu fólki í kringum okkur. Það er nú þannig að maður tekur svoleiðis hlutum alltof sjálfsögðum. Stundum er sagt í gríni "þú velur þér vini en þú ræður engu um það hvernig fjölskyldu þú færð". Þegar börnin manns fara að slá sér upp og "aukaleikendur" (þau byrja nú þannig þessar elskur), fara að koma inn á heimilið. Maður gleymir oft hvað það er erfitt að koma svona inn í nýja fjölskyldu og reyna að fóta sig jafnvel í samkeppni við aðra "aukaleikara". Ég held samt að það sé best að taka þessum krökkum bara af virðingu og þægindum, vera ekkert með of mikil afskipti en reyna að koma til skila ákveðnum boðum. Ég er alla vega ánægður með þessar elskur sem eru á heimilinu okkar núna.
Ég man alltaf eftir því sem mig minnir að sé eina skiptið sem tengdapabbi minn heitinn lagði mér heilræði varðandi samband mitt við Birnu mína. Þá vorum við staddir í veiðiferð á Arnarvatnsheiði, hvar er betri vettvangur fyrir heilræðagjöf. Bjarni (tengdó), Sævar (vinur hans og mágur) og ég nýgræðingurinn og bílstjórinn í ferðinni:-) Þá man ég að Bjarni sagði að ég væri, eins og hann sjálfur varðandi Grétu, heppnasti maður í heimi með að hafa krækt í Birnu. Þær væru svo líkar á margan hátt. Svo kom það: "Þú verður gefa mér bara eitt loforð, að vera alltaf góður og heiðarlegur við Birnu mína annars verður mér að mæta". Þetta var sagt í þéttum góðlátlegum tón undir "mjúkum kringumstæðum" og það skilaði sér fullkomlega. Það er ekki eins og það hafi þurft stórátak af minni hálfu að efna þetta loforð gegnum árin, (ég vona að mér hafi tekist það í það minnsta í aðalatriðum). Allir sem þekkja Birnu mína vita fyrir hvað hún stendur. Lilja frá heimahlynnningunni kom kl. 11 og hjálpaði mér með að koma betra skipulagi á lyfin mín. Við fjölguðum lyfjatímum úr 3 í 4 og ég þarf þar með að kaupa nýtt box með fjórum hólfum pr/dag. Held að þetta verði miklu jafnara og betra svona. Óþægilegt að vera að taka allt upp í 13 töflur í hvert skipti;-( þegar það er ekki endilega nauðsynlegt. Heimahlynningin kemur næst á Þorláksmessu, þriðjudaginn 23. des kl. ca 11 (muna það). Fór á flandur og kláraði smáerindi sem höfðu safnast upp óafgreidd. Fór og skipti afmælisbókum (veit, eða a.m.k. vona, að ég móðgi engan með því). Skipti bókum frá Sigga og Guffu (John Grisham) og Sigurjóni og Kristínu (Saga forseta). Tók í staðin nýju bækurnar eftir Stefán Mána (Ódáðahraun), Yrsu (Auðnin) og Árna Þórarinsson (Sjöundi sonurinn), allt bækur af óskalistanum mínum þannig að ég er í hrikalega góðum lestrarmálum á næstu vikum:-) Fór í Glóey og keypti slatta af ljósaperum sem vantaði víða um húsið. Það þarf nú eitthvað að fara að skoða verðlagningu á ljósaperum held ég, 11 ljósaperur á tæplega 14 þúsund krónur er ekki í lagi að mínu mati. Ætlaði næst að bruna á Skólavörðustíginn í prjónabúðina þar sem mamma keypti hvítu ullarpeysuna sem hún gaf mér. Peysan er æði en mér finnst hún kannski heldur stór svo ég ætlaði að skoða hvort ég sæi eitthvað sem passaði betur en þá hringdi strákurinn úr Elkó (Guðni) og sagðist verða í Berjarimanum eftir 10 mínútur svo það var ekki um annað að ræða en bruna upp eftir. Niðurstaðan varð sú að byrja á að skipta út afruglaranum og skarttengjunum, líklegast að aukahljóðið tengist afruglaranum. Laufey Sif er búin að panta pössun fyrir KSC í kvöld, ætlar að borða með vinkonum sínum á Horninu. Þær hafa haft þetta fyrir sið að í staðin fyrir að gefa hvor annarri jólagjöf þá gera þær þetta. Mér finnst þetta þrælsniðugt. Ég ákvað að elda spaghetti Bolognese a l´a Ingó. Ég er búinn að vera með extra mikla matarlyst undanfarna daga og um að gera að nýta sér það. Ég borðaði hrikalega mikið (sem er bara fínt, ekki veitir af). Hlustaði á Atla vin minn í útvarpinu seinni partinn í dag þar sem rætt var við hann um nýtt markaðsátak Nóa Síríusar á bakara- og stóreldhúsamarkaðinn. Einnig var talað við Steina vin minn í "Okkar bakarí" en hann hefur verið frumkvöðull í að taka inn súkkulaði frá Nóa og aðlaga í framleiðsluna þeirra. Þeir eru komnir með tertur og kökur þar sem sérstaklega er gert út á hið sérstaka og sígilda bragð af Nóa súkkulaði sem íslendingar elska. Mér finnst ég eiga svolítið í þessu framtaki, hef lengi róið í bæði Atla, Steina og fleirum varðandi þetta mál. Þótt mikið sé til af góðu súkkulaði á markaðnum þá hefur það alltaf pirrað mig sem fagmann að N.S. skuli ekkert hafa sinnt þessum markaði (nú eða öfugt, menn verða svo sem líka að bera sig eftir björginni). Veit að Atli er ánægður með að þetta er komið af stað, ég vona bara að hann fái verðskuldaðan stuðning við þetta mál hjá N.S., hann er virkilega búinn að hafa mikið fyrir þessu máli. Birna kom fyrr heim en hún ætlaði sér, bæði var hún hálfslöpp en einnig vegna pössunarinnar sem var fyrirhuguð. Kamilla Sif var reyndar þæg sem lamb og allt gekk vel fyrir utan það að krakkinn gerði heiðarlega tilraun til að hengja sig í silfurhálsmeninu sínu. Náði einhvern vegin að krækja keðjulásnum í eina sylgjuna á gönguskó afa síns og allt í einu heyrði amman skrítin hljóð úr barnsbarka og sá sér til skelfingar að KSC var dragandi heljarinnar fjallaskó undir hálsinum á sér. Amman sýndi snarræði, sleit keðjuna og lífi barnsins var þar með bjargað;-) Heyrði í Sigga bró um kvöldmatarleytið, var á leið á hljómsveitaræfingu, held að þeir séu að meika það fyrir alvöru núna. Hann lýsti fyrir mér að þeir hefðu, á síðustu æfingu, náð að æfa öll þrjú flottu lögin með Dooby brothers með röddun og ÖLLU. Ég efast reyndar ekkert um að þetta sé mjög skemmtilegt hjá þeim. Allt músikalskir strákar (á besta aldri), búnir að koma sér upp ágætis búnaði og aðstöðu - ÖRUGGLEGA BARA GAMAN! Ég heyrði svo líka í Atla aftur í kvöld en þá voru nú heldur leiðinlegri fréttir. Mamma hans (97 ára) hafði verið að koma úr Bónus (hópferð með rútu frá elliblokkinni) og stóð með pokana sína fyrir utan rútuna þegar hún datt svona illa í hálkunni og mjaðmargrindarbrotnaði. Hrikalegt! Það má búast við að það geti orðið lengi að gróa.

6 ummæli:

  1. Sæll Ingó! Ánægjulegt að lesa skrifin þín - þú ert frábær penni og margir mættu taka jákvæðnina og æðruleysið þitt til fyrirmyndar:)

    Bestu kveðjur,
    Linda Heiðarsdóttir (dóttir hennar Gústu)

    SvaraEyða
  2. Flott síða hjá þér Ingó gaman að fá að fylgjast með þér og þínu fólki. Vonandi er Bjarni vaknaður og byrjaður að mála:O)Eigðu góðan dag í dag.
    kveðja Dabba

    SvaraEyða
  3. Sæll elsku kallinn, og takk fyrir hlý orð í minn garð. Mér þótti rosa vænt um að sjá ykkur eftir tónleikana, er búinn að hugsa til þín síðustu mánuði og held því sko áfram, sendi fullt af góðum straumum :) það er gott að lesa bloggið þitt.

    Hafið það svaka gott :)
    Sveinn Dúa Hjörleifsson

    SvaraEyða
  4. Elsku Ingó.
    Gaman að fylgjast með blogginu þínu. Tek undir það með Lindu að það ættu margir að taka þig til fyrirmyndar. Þú ert algjör hetja.

    Stórt knús til ykkar allra.
    Didda (Gauja) frænku Birnu og matarklúbbsmeðlimur :)

    SvaraEyða
  5. Líst vel á þessi bókaskipti,enda á að velja íslenskt í dag:)
    Sjáumst vonandi sem fyrst.
    Kv,
    Guffa

    SvaraEyða
  6. Hey,hey, ég var nú EKKI næstum búin að hengja barnabarnið, dálítið ýkt. En borgar sig samt að fylgjast með þessum krílum.
    Knús

    SvaraEyða