12.12.08

Siggi bró. Pípulagningar, reiði, gleði, menning o.fl.

Búinn að hugsa svo mikið um margt af því sem við Siggi bró vorum að fílósófera um í gærkvöldi. Þarf eiginlega að fá hann aftur sem fyrst:-) Friðbjörn (læknirinn minn) rölti fram hjá hurðinni minni kl. 8 í morgun. Stoppaði í hurðinni mjög sposkur á svip og sagði: Kl. 11 - sjáum til - lofa engu -
og var þar með farinn. Ég ætla bara að vera bjartsýnn áfram, flauta og blístra saman (prófiði það;) Er að reyna að laga (lesist:fikta) í uppsetningunum á bloggsíðunni. Þetta "Blogger" er greinilega bloggform frá tímum risaeðlanna. Ég er að hugsa um að reyna að fá smá aðstoð frá S. Sævarri svila mínum, þeim eðaldreng og reynslumikla blogghundi, til að hjálpa mér eitthvað með uppsetningar við tækifæri. Stofugangurinn (læknahópurinn) kom við hjá mér og það er greinilegt að allir eru meðvitaðir um að Friðbjörn er reiður og vill að ég komist í speglunina á eftir. Vonandi gengur þesi stríðsáætlun hans upp.
Hringdi í Sr. Önnu Sigríði Dómkirkjuprest og fjölskylduvin leyfi ég mér að segja. Hún er orðin svo ótrúlega tengd okkur eftir undanfarin ár og hefur reynst okkur eins og klettur. Það hefur lengi staðið til að fá hana til að setjast niður með fjölskyldunni í notalegt spjall og hún tók, eins og við mátti búast, vel í það. Stefnan er að hún hitti okkur í Berjarimanum kl. 15 á mánudaginn n.k. svo framarlega sem ég fæ heimferðarleyfi. Í verra fallinu myndum við hittast á spítalanum en mér hugnast það nú síður. Obbosí kl. er hálf ellefu og verið að ná í mig til að fara í speglunina, frábært. Meira á eftir. Birna var svo hjá mér þegar ég rumskaði uppi á herbergi. Allt gekk vel eftir því sem sögur herma. Einar Oddsson, sá sem tók mig að sér setti annað rör innan í stálrörið (þarf maður ekki að vera pípulagningamaður í svona verkefni). Ég var sársvangur eftir bröltið og pantaði te og ristað brauð með tilbehör. Núna þegar ég hef borðað líður mér nákvæmlega svona:
Nú er ég glaður

Nú er ég glaður á góðri stund
sem á mér sér.
Guði sé lof fyrir þennan fund
og vel sé þeim sem veitti mér.
Vitjað hef ég á vinamót
sem nú á sér.
Reynt af mörgum hýrleg hót
og vel sé þeim sem veitti mér.

Höfundur lags: Íslenskt þjóðlag
Höfundur texta: Hallgrímur Pétursson
Útsetning: Sigursveinn D Kristinsson
Bryndís og Hilmar smitsjúkdómalæknar komu og fóru yfir stöðuna. Smitgát vegna Klostredíums er lokið og þau eru helst á því að taka pásu í sýklagjöf í forvarnarskini. Verður skoðað betur á næstunni. Bjarni Grétar og Beta komu í heimsókn, frábært að fá þau í innlit. Þau voru bæði hress, bæði búin í prófum og einhver gleðskapur fram undan í kvöld að því að mér skilst. Bjarna gekk ekki alveg eins vel í eðlisfræðiprófinu og honum hafði búist við. Henn hafði reiknað með að taka 10 en sagði að prófið hefði verið svínslega erfitt og vorkenndi þeim sem ekki hefðu undirbúið sig vel. Sjáum til hvað kemur út úr þessu. Nú ætla ég að taka smá letikast og leggja mig. ...seinna... Knock, knock, Friðbjörn kíkti við. Hafði hitt Einar Oddsson og fékk ég nú nánari skýringu. Stífla í gallvegi fyrir neðan stálrörið. Hann setti plaströr sem dekkaði þann hluta svo nú á gallvegurinn að vera fóðraður. Skolaði svo allt gumsið út. Ég verð á sýklalyfjatöflum eitthvað áfram (skoðum forvarnarmálin seinna eins og Bryndís og Hilmar sögðu). Ef gulan fer (sem Friðbjörn reiknar með) þá fer ég heim. Tónleikar helgarinnar eiga alla vega að vera í lagi. Ergó: VIÐ FRIÐBJÖRN FÖRUM GLAÐIR INN Í HELGINA. Sigurjón bróðir hringdi, allir í hans koti með ælupest nema Erla frænka. Siggi hringdi líka og sagði mér að hann hefði farið ásamt iðnaðarmönnunum vestur á Mýrar og klárað að steypa í gólfið á bústaðnum;-) Það er frábært að það skuli vera frá, bara eftir að grunna og þá er húsið í raun orðið rykfrítt og tilbúið undir tréverk. Skemmir aðeins fyrir að það skildi koma upp ósamkomulag við Mársa frænda vegna uppgjörsins, en eins og ég hef alltaf sagt, forðast í lengstu lög að blanda saman fjölskyldu og peningum. Það er ávísun á vandamál. Birna hringdi og spurði hvort hún ætti að færa mér eitthvað að borða, þá var ég nýbúinn að fá matinn á borðið og sat og hámaði i mig. Ekki slæmur matur í þetta sinnið, kjötbúðingur með grænmeti og, það sem gladdi mig mest, kakósúpa með tvíbökum. Þannig að ég er bara saddur og sáttur núna:-) Birna var hjá mér í góða stund, við getum samglaðst yfir breyttri stöðu núna og vonum að ég geti farið heim á morgun. Hún skellti sér svo á Nings (enda ein að borða í kotinu) keypti sér svínapurusteik sem hún fór með heim, skellti hvítvíni í glas og huggede sig lidt, ég er bara helv. ánægður með mína. Annað kvöld ætlum við að sjá Emilíönu Torrini í Háskólabíói kl. 20:00 og á Sunnudagskvöldið eru aðventutónleikar Karlakórs Reykjavíkur í Hallgrímskirkju kl. 20:00. Vá hvað mig hlakkar til að drekka í mig menninguna með spúsu minni:-) Þaetta var farið að líta frekar illa út með speglunina óafgreidda og ég þar með hálflasinn. Allt í betri áttina núna. Fer að leggja frá mér tölvuna núna, enda búinn að sitja ansi lengi við, og halda áfram með Sólkrossinn. Hún fór nú bara hressilega í gang, náði einhvejum 60 bls. áður en ég lagði hana frá mér. Mér sýnist Óttar samt ekki alveg ná sama dampi og með Hnífi Abrahams í fyrra en það er nú reyndar alltof snemmt að dæma um það strax.