9.12.08

Klostredíum og fleira skemmtilegt

Skrítinn morgunn. Svaf ótrúlega mikið, þótt svefninn hafi verið gloppóttur þá var hann yfir það heila tekið 10 tímar (frá hálf 12 til hálf 10 í morgun). Ég hafði ekki einu sinni rumskað þegar morgunmaturinn var settur hjá mér sem yfirleitt um klukkan hálf 9 til 9. Mamma kom við hjá mér um klukkan 10, átti leið hjá. Sat hjá mér í góða stund sem var fínt. Eftir að hún var farin leyfði ég mér bara að vera latur, las smávegis, dútlaði í tölvunni og dormaði þess á milli. Ég uppgötvaði hvað var öðruvísi við rúmið, svefninn OG BAKIÐ frá fyrri nóttum. Þegar rúmið mið var fært milli herbergja þá höfðu vinkonur mínar viljað gera mér extra gott og settu eggjabakkadínu ofaná dínuna sem var fyrir. Ég er óvanur svona dínu og þess vegna var hún eitthvað að trufla mig. Ég ætla samt að láta reyna á þetta og sjá hvernig næsta nótt verður á eggjabökkunum:-) Ég las talsvert í Myrká Arnaldar, er líklega búinn með 2/3 af bókinni. Hún er fín, ekta Arnaldur, efnistökin ekkert rosalega umfangsmikil en listilega spunnið á milli til að teygja lopann. Svona geta bara meistarar. Atli vinur kom í heimsókn og færði mér konfektkassa, þær eiga eftir að fá að kroppa í hann hjúkkurnar sem snúast í kring um mig. Þá meina ég auðvitað kroppa í konfektkassann, ekki Atla;-) Birna kom svo þegar Atli var að tygja sig til heimferðar. Hún dreif mig á lappir, í fötin og út í göngutúr, engin miskunn þar. Nei, grínlaust þá var það auðvitað frábærlega hressandi og gaman að labba í götunum hérna við spítalann með þessum fallegu húsum og görðum og ekki skemma jólaskreytingarnar sem víða eru komnar upp. Þegar inn var komið var maturinn á borðinu og farinn að kólna, ekki að það breytti mjög miklu um gæðin held ég, frekar óspennandi að vanda. Eftir mat var lesið, horft á imbann, stússast í tölvunni, þessa dagana er það helst bloggið og Facebook sem slæst um tíma minn. Ég er að fást við dálítið skemmtilegt fikt á facebook sem heitir "where I´ve been" eða "hvar hef ég verið". Þá merki ég inn á heimskort staði, borgir og /eða lönd, sem ég hef komið til. Ansi skemmtilegt en merkilegt hvað maður hefur gleymt miklu af t.d. borgum sem maður hefur komið til. Alltaf að rifjast eitthvað nýtt upp og það er seinlegt að vera alltaf að fara inn aftur og aftur og bæta við.
Nú er klukkan að detta í tólf og nú ætla ég að fara að sofa.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli