17.2.03

Flutningar

Lítið búið að gerast hjá mér varðandi námið undanfarna daga en reynt verður að taka skurk í þessari viku. Einhver villa á bloggsíðunni sem ég hef ekki fundið út úr. Get ekki sett inn linka o.þ.h. Ekki laust við að maður sé lúinn eftir átök liðinnar viku, ég stóð í flutningum með tilheyrandi sparsl- og málningarvinnu og var lokaspretturinn um helgina. Fluttum ekki langt, ca 150 metra, úr Berjarima 16 í Berjarima 47. Það var farið að vera þröngt um okkur á gamla staðnum en vildum ekki fara út úr skólahverfinu vegna barnanna. Í kjölfarið á flutningunum er verið að velta fyrir sér tækniatriðum eins og ADSL o.fl. Heljarinnar frumskógur að reyna að átta sig á tilboðum símafyrirtækjanna. Búinn að skrá mig á UT en er ekki búinn að ákveða hvernig ég kem mér á staðinn. Hugsanlega eru fleiri sem fara frá MK og gæti verið möguleiki að sameinast í bíl.
Bloggari: Ingólfur

3.2.03

Ég og tæknin árið 2013

Nú sit ég við kristalskúluna og reyni að sjá fyrir mér tæknilegar aðstæður mínar 10 ár fram tímann. Ég vænti þess að talsverðar breytingar verði á þessum tíma. Fjölmiðlun verður að öllum líkindum með talsvert öðru sniði en er í dag. Stafrænt sjónvarp mun bjóða upp á mun meira val á efni en nú er og ég á alveg eins von á að dagblöðin renni að miklu leyti saman við þá tækni. Hvað starfið varðar þá verður mikil þróun á sviði fjarkennslu auk þess sem námsleiðir verða miklu fleiri þar sem auðveldara verður að skraddarasauma nám að þörfum hvers og eins. Ég er ekki viss um að heimilishald fari í gegnum neina byltingartíma á næstu tíu árum en klárlega mun tæknin þróast áfram. Ég held þó að fólk staldri eitthvað við á næstu árum hvað varðar matargerð og mataræði og verði e.t.v. ekki endalaust ginkeyptara fyrir tæknilausnum til skyndimatseldar. Ég tel víst að mynd- og hljóðtengd samskipti munu verða allsráðandi eftir 10 ár og bréfaskriftir með tölvupósti verði þá bara til í gamansögum.
Bloggari: Ingólfur

Unnið að vefsíðunni

Ég er kominn með vonda samvisku gagnvart dagbókinni enda langt síðan ég skrifaði síðast. Hef verið að brasa við að koma upp VEFSÍÐUNNI minni, ótrúlegt hvað það er mikið stúss. Ég taldi mig vera sæmilega kunnugur Dreamweaver, búinn að fara á tvö námskeið í DW en samt vefst þetta ótrúlega fyrir manni. Myndvinnslan í Fireworks er það sem gengur verst og hefði ég gjarnan viljað fá miklu meiri tíma með Birni í staðbundnu lotunni. Á vefsíðunni er að koma mynd á formið en mikið verk óklárað í tengisíðum o.fl. Ég hef lagt áherslu á BAKARAVEFINN sem er reynar tengisíða af vefsíðunni en er hugsaður sem sjálfstæður vefur og upplýsingaveita fyrir nemendur mína í bakaradeild. Á næstu dögum mun ég reyna að tengja meira við síðuna þannig að blindgötum fækki.
Bloggari: Ingólfur

Ég og tæknin árið 2003

Í tengslum við námskeiðið erum við beðin um að setja hér inn á bloggsíðun lýsingu á þeim aðstæðum varðandi tækni sem við búum við núna. Hvað mig varðar þá hef ég alltaf haft áhuga á tækninýjungum en get ekki sagt að færnin hafi verið á samsvarandi stigi og áhuginn. T.d er ég einn af þeim sem þarf að fá aðstoð reglulega við að tengja videótækið eða afruglarann o.s.frv. Ég hef afar litla þolinmæði í að brjóta heilann um scarttengi og rásarstillingar og slíkt. Á mínu heimili hefur smátt og smátt bæst í tæknitólin. Fyrstu tölvuna keypti ég 1986 í tengslum við fyrirtækjarekstur en á heimilið kom ekki tölva fyrr en 10 árum síðar. Sú vél er nú einhvers staðar í myrkviðum geymslunnar og komin ný (leikjavænni) vél á heimilið eftir að börnin voru farin að hvarta hástöfum yfir hægaganginum í þeirri gömlu. Internettenging kom um svipað leiti og gamla tölvan ´96 og er netið mikið notað á heimilinu. Ég nota netið við upplýsingaleit og samskipti í tengslum við nám og starf og börnin sem samskiptatæki, lengi vel á irki en nú mest í MSN. Fartölvu keypti ég fyrir 3 árum og notaði mikið heima og í starfinu í MK. Síðastliðið ár hef ég haft fartölvu frá skólanum til umráða. Það fór að vísu ekki vel af stað þar sem ég lenti í þeim óskunda að fartölvunni var stolið, í MK, með tösku og tilheyrandi eftir einungis tveggja mánaða samveru við undirritaðan. Hrikalega svekkjandi en fartölvur ku víst vera einhver vinsælasta verslunarvaran í undirheimunum þessa dagana. Internettengingin er þessi gamla góða 56 k en stendur til bóta þar sem til stendur að kaupa sítengingu fljótlega. Tengingin er í gegnum Ísmennt. Ég hef gert dálítið af því að versla gegnum netið, forrit og bækur og aldrei lent í neinum vandræðum með það. Við hjónin erum með gsm síma og dóttir okkar fékk að kaupa sér síma þegar hún varð 13 ára. Nú er sonurinn að verða 13 ára eftir nokkra daga og það liggur víst ljóst fyrir í hvað afmælispeningarnir hans munu fara! Tölvuleikir eru vinsælir á heimilinu, sérstaklega hjá drengnum og hefur hann átt gameboy og playstation og hvað þetta nú allt heitir en nú eru pc leikir vinsælastir. Stelpan er mikið meira á samskiptaplaninu (msn) en hvað leiki varðar var hún talsvert í Sims leiknum en virðist ekki hafa áhuga á því lengur. Hún átti kost á valgreinum í skólanum í vetur og valdi tvo áfanga sem kenndir eru gegnum WebCt; Skapandi skrif og hagnýta stærðfræði, hvorutveggja áhugaverðir kúrsar og sýnist mér þetta námsform verka hvetjandi á hana. Hvað vef varðar þá er þetta í fyrsta sinn sem ég set upp vef (undanskil ýmsar fyrri tilraunir). Við hjónin notum bæði tölvur mikið í okkar starfi og teljum bæði að erfitt væri að komast af án tölvunnar. Hvað mig varðar þá hefur skipulag kennslunnar gjörbreyst með tilkomu aukinnar tækni, öll gögn eru aðgengilegri auk þess sem endurbætur ítarefnis eru mjög auðveldar og fljótvirkar. Framsetning kennslugagna hefur orðið fjölbreyttari og svo mætti lengi telja. Hvað samskipti varðar þá eru allir fjölskyldumeðlimir í samskiptum við fjölda fólks bæði innan lands sem utan gegnum netið. Þar er um að ræða vini og kunningja, ættingja og aðila í tengslum við störf okkar. Hvort samskipti gegnum tölvupóst hafi styrkt tengsl treysti ég mér ekki til að fullyrða þó er það hugsanlega tilfellið hvað mig varðar. Í fyrra keypti ég stafræna upptökuvél en er ekki kominn með firewire tengi ennþá (fer vonandi á fjárlög þessa árs :-)
Bloggari: Ingólfur