15.12.08

Home sweet home!

Átti frekar ónæðissama nótt. Herbergisfélagi minn var í einhverjum vandræðum með skammtarann sinn og hann pípti stöðugt. þetta var nú mest til sjálfum mér að kenna. Félaginn var búinn að vara mig við því að hann svæfi fyrri hluta næturinnar í Lazy Boy stólnum í setustofunni vegna verkja. Síðan væri hann vanur að færa sig yfir inn í rúm. Auðvitað átti ég að einbeita mér að því að sofa meðan hann var í setustofunni. En ég var eitthvað upprifinn eftir þessa frábæru Karlakórstónleika og fór bara að lesa. Svo loksins þegar ég var nýsofnaður þá kom félaginn með pípandi tækið sitt og ég vaknaði á 20 múnútna fresti eftir það. Fór að blogga snemma í morgun frekar heldur en að telja kindur og las áfram í Sólkrossinum. Fínasta bók sem heldur mér ágætlega við efnið. Friðbjörn læknir kom og spjallaði lengi við mig. Ákveðinn í að útskrifa mig en vill að ég komi á fimmtudaginn í viðtal eins og um var talað og með ferska blóðprufu með mér. Ekkert mál! Gengið frá nýju lyfjakorti. Mikil pressa kom allt í einu frá bráðamóttökunni að fá rúmið mitt til afnota þannig að ég hringdi snarlega í Bjarna Grétar og sagði honum að ég væri tilbúinn og hann mætti koma og sækja mig. Svo var bara að pakka því litla niður sem ég var með. Fór í apótekið (einu lyfinu bætt við) og sótti mér viðbót á orkudrykki og built-up. Svo kvaddi ég starfsfólkið og við Bjarni fórum heim. Mikil lifandis skelfing var gott að koma heim. Séra Anna Sigríður varð ljúflega við beiðni um að koma til okkar og ræða málin varðandi veikindin, lífið og tilveruna. Hún sat hjá okkur hátt á annan klukkutíma og það var bara indælt og gott. Hún er bara svo frábær og þekkir okkur orðið svo vel og okkar sögu. Ég uppgötvaði allt í einu að nú koma lyfin ekki bara til mín þegar ég á að taka þau heldur þarf ég að bera mig eftir þeim. Var búinn að steingleyma svoleiðis smámunum. Sem betur fer kom Laufey Sif ákkúrat heim í þann mund sem éga var að fara að byrja að taka lyfin til í boxið mitt. Hún er svo ansi röggsöm í þessu og klár. Við vorum eldsnögg í þessu saman, aðallega hún samt. Mamma kom við, var á leið til Rúnu frænku. Hræðilegt áfall hjá henni að koma að syni sínum látnum í gær en segja má að þar sé líka hugsanlega ákveðinn léttir á ferð þar sem hann hlýtur að hafa verið orðinn lúinn á streði í baráttunni við fíkniefni í mörg undanfarin ár. Mannlegt eðli þolir bara ákveðið og einhvern tíman fá menn nóg. Birna fór í aðventusaumó hjá Fjólu, stelpurnar eiga að koma með gjöf með sér og nú á að hafa það huggulegt. Gott hjá þeim. Sendi Bjarna á KFC til að kaupa kvöldmatinn, át eins og ég hefði ekki fengið að borða í viku. Brynja hringdi til að minna mig á að á morgun á ég að hringja í Guðna í Elko og láta laga aukahljóðið í sjónvarpinu. Lesið í maraþoni í Sólkrossinum núna. Spennnan magnast.
Birna komin heim úr saumó alsæl. Fékk einhvern voða dúllulegan kertastjaka í "jólagjöf" Góða nótt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli