15.12.08

Friður á jörðu

Enn einn morguninn vakna ég í sæluvímu eftir frábæra upplifun á menningarsviðinu frá kvöldinu áður. Aðventutónleikar Karlakórs Reykjavíkur í Hallgrímskirkju eru fyrirbæri sem ég á nú að vera orðin vanur án þess að vera í andköfum. Ég er búinn að taka þátt í þessu sem kórmaður í það mörg ár og alltaf fundist þetta jafn gaman. Vortónleikar KR eru alltaf skemmtilegir en aðventu-tónleikarnir hafa skapað sér sess meðal þjóðarinnar sem ómiss-andi þáttur í aðdraganda jólanna. Segja má að Karlakórinn hefji þessa lotu með því að syngja í aðventumessu 2. sunnudag í aðventu. Fjórum sinnum fyllir kórinn svo Hallgrímskirkju (4 sinnum, þetta stóra volduga hús). Það var troðfullt hús í gærkvöldi og reynda var þannig á öllum tónleikunum. Það þurfti að setja stóla ansi víða en mér sýndist þó að þokkalega færi um tónleikagesti. Stjórn kórsins var svo elskulega að bjóða mér og fjölskyldunni á lokatónleikana og tók frá sæti fyrir okkur á fremsta bekk. Sátum þar í góðu yfirlæti með fjölskyldu Friðriks kórstjóra, Bjarni Færeyjingur og fólk á hans vegum. Það var mjög gaman að prófa að sitja svona á fremsta bekk og upplifa nálægðina og aflið sem þessi kór býr yfir. Kórinn byrjaði á að ganga inn kirkjuna syngjandi Alta trinita beata, alltaf tilkomumikið. Kórinn hélt síðan áfram söngnum skiptur og kallaðist á í Ave Maria eftir Franz Biebl. Þessa Maríu hef ég ekki sungið svo ég muni, mjög falleg. Eftir það rann kórinn í hefðbundna uppstillingu undir orgelinu og aðventulögin runnu hvert eftir annað. Allt vel gert. Sveinn Dúa Hjörleifsson söng einsöng með kórnum í Panis angelicus og strax á eftir í Ave Maríu Schuberts (ótrúlega áreynslulaust og vel sungið). Sveinn er að þroska með sér þéttleika og öryggi í röddina sína og það heyrist vel. Ásgeir Eiríksson steig fram og söng Ó helga nótt af sinni alkunnu snilld og smekkvísi. Samkvæmt dagskrá átti hann að syngja Agnus Dei strax á eftir en því var sleppt. Ég frétt það eftir tónleikana að hann væri lasinn í hálsinum og það getur alltaf komið fyrir. Við sem hlustuðum á hann syngja Agnus Dei í vor munum vel eftir þeirri snilld. Sveinn Dúa kom svo aftur fram og tók tvö lög í viðbót tónleikagestum án efa til mikillar gleði. Lögin sem Sveinn söng voru Friður á jörðu eftir Árna Thorsteinson og Ave María eftir Kaldalóns.
Þessi lög voru sungin af ótrúlegri næmni og hittu fólk beint í hjartastað. Ég heyrði verulega mikið snökkt allt í kringum mig. Ég hitti Svein eftir tónleikana og ég sagði við hann að hann hefði skellt mér á magann í mitt Kaldalónið, ég fór að grenja eins og kjelling. Þannig var nú það. Svenni hló nú bara og sagði að það væri allt í lagi ég hefði hvort sem er alltaf verið kjellling;-)

1 ummæli:

  1. Góðan daginn minn kæri, ég og Eva sitjum hér heima, ælupest á heimilinu :( ákvað að prófa að setja inn ath.semd einu sinni enn.
    Það er aldeilis útstáelsi á ykkur, frábært. Enda aðventan besti tíminn.
    Koss á línuna,
    Hanna Fríða og Eva.

    SvaraEyða