18.12.08

Bænir í stað jólakorta í ár.

Þetta er að komast í vana á morgnana að byrja á að taka til í hafragrautinn, hendast svo út í jólasnjóinn með Vask kl. 7, taka einn labbhring, keyra út í bakarí ef þörf er á (Bakarameistarann við Húsgagnahöllina) kaupa eitthvað gott brauð og (algjör skylda) 2 - 3 múslístangir nammi. Síðan taka góðan tíma í að sópa snjóinn af ÖLLUM bílunum okkar og svo er bara að drífa sig inn að borða morgunmatinn og lesa blöðin með spúsunni sem yfirleitt er komin niður og búin að gera sig sæta þegar þarna er komið sögu. Morgunmaturinn í kyrrðinni er enn sem fyrr mín uppáhaldsmáltíð
Átti tíma hjá Friðbirni kl. 11:20 ætlaði að vera mættur í blóðprufu klukkutíma fyrr. En steinsofnaði (að skipun Laufeyjar) kl. 9:30 og vaknaði ekki fyrr en kl 11. Brunaði niður á Landsa og hringdi í Birnu á leiðinni. Hún ætlaði að koma með mér að hitta Friðbjörn. Hittum hann á réttum tíma og áttum mjög góðan fund með honum. Við ákváðum í samráði að taka okkur 2 vikna frí frá öllum lyfjagjöfum og hittast aftur ca viku af janúar. Ræddum óvenju mikið um horfur og slíkt og það var mjög gott. Ekki eins og það sé mikið hægt að spá í þessa sérstöku kristalskúlu en samt gott að fara öðru hverju í gegnum hlutina hreinskilinslega. Ég fékk síðan tíma aftur 8. janúar kl. 12 og geri þá ráð fyrir að fara í lyfjagjöf. Fór í blóðprufuna að þessu loknu og sé bara til hvort Friðbjörn hringir niðurstöðurnar til mín eða hvort ég sé þær þegar ég hitti hann í janúar. Fór í OG Vodafón og fékk nýjan afruglara eins og Guðni í Elkó var búinn að biðja mig um að gera. Kom reyndar í ljós þegar strákarnir (Kalli og Bjarni) voru búnir að tengja hann rétt þá er sama hljóðið í sjónvarpinu;-( Á morgun ætla ég í Elkó og kaupa gullskarttengisnúrur. Ef það virkar ekki þá tala ég aftur við Guðna með tveimur hrútshornum. Bjarni kláraði að "setja gestasalernið saman aftur eftir málunina" og þetta kemur reglulega vel út hjá honum. Efnilegur málari á ferðinni þar. Fór upp í MK og hitti loksins á Margréti, búinn að reyna lengi að ná tali af henni. Hún var mjög jákvæð enda má segja að allt hafi gengið eins og best gat orðið miðað við aðstæður. Ásgeir Þór og Ásthildur hafa í sameiningu leyst öll kennslumálin ótrúlega vel og ég held að allir þræðir séu vel hnýttir. Ég fékk sms frá Kristínu hans Flosa á Flugustöðum og ákvað að hringja í hana frekar heldur en far að svara sms-inu. Þegar Kristín svaraði kom í ljós að þau voru á leið á Djúpavog í matarboð til Stefu og Ninna. Stefa er dóttir Sigga Albertssonar heitins frænda míns (hálfbróðirs ömmu Stefaníu). Það var gaman að spjalla við Kristínu og allt gott að frétta úr sveitinni. Við Birna fórum í bæinn kl 19, lögðum fyrir framan Kjörgarð og löbbuðum niður Laugarveginn. Fórum inn í búð sem heitir Moods of Norway. Ég sá gegnum gluggann að Henry Reynisson bakari stóð við afgreiðsluborðið enda kom í ljós að hann rekur þessa búð ásamt vinum sínum. Ferlega flott búð með flottum vönduðum vörum framleiddum í skandinavíu. Eða eins og stóð innan í einum jakkafötunum sem kostuðu reyndar 90 þúsund kall "Made in scandinavian by some serius hot girls". Löbbuðum áfram niður eftir (vorum farin að svengjast) og fórum inn á veitingastað þar sem áður var "Leggur og skel" en heitir nú - ja skritið en satt - Scandinavian smörrebröd;-) Fengum okkur H.C Andersen brauðsneið, camenbert og bacon brauðsneið og raupssprettusnittu. Þessu skoluðum við að sjálfsögðu niður með bjór og Gammel Dansk. Skemmst er frá því að segja að þetta bragðaðist allt saman afbragðs vel og fórum við södd og sæl út í jólaskæðadrífuna sem nú var boðið upp á á Laugarveginum. Gengum inn í Dómkirkjuna en Anna Sigríður hafði sagt okkur frá því að alla fimmtudaga milli 20 - 22 er þar bænastund. Komum við í 10 -11 fyrst til að kaupa Ópal í munnin. Held að Birna hafi ekki viljað anga af Gammel í Dómkirkjunni. Það var ofsalega notalegt að sitja þarna, kveikja á kertum og láta hugann reika. Löbbuðum svo bara aftur upp eftir komum við í Nýlenduvöruverslun Hemma og Valda (Valdi er bróðir Rakelar svilkonu) þar sem ég fékk mér bolla af kakói með rjóma. Það hefði nú bæði mátt vera bragðmeira og heitara enda viðurkenndi "kaupfélagsstjórinn" að hann hefði gleymt mér "aðeins" eins og hann orðaði það. Við hittum Regínu vinkonu Laufeyjar þarna inni og svo droppaði sjálf Lay-Low inn á meðan við vorum þar, greinilega heitur staður. Þegar heim var komaið var Laufey Sif búin að baka stóran skammt af skinkuhornum fyrir afmæli Kamillu Sifjar sem halda á upp á á sunnudaginn. Mér skilst á LSI að það eigi að bjóða milli 80 og 90 manns.... bilun.
.
þarf að fara á Landsann og sækja vttorðið frá Friðbirni.
Kaupa gullskarttengisnúrur í Elkó
Mamma ætlar að koma á morgun í tiltekt

Engin ummæli:

Skrifa ummæli