21.12.08

Ég mun ekki blogga meira hér á þessari slóð ......

Kæru vinir sem hafið verið að fylgjast með blogginu mínu. Takk fyrir áhugann og athugasemdirnar. Ykkar vegna held ég blogginu áfram en flyt mig yfir á heldur skemmtilegra bloggsvæði. Bæði auðveldara fyrir mig að vinna á því svæði og svo held ég að það sé skemmtilegra fyrir ykkur. Aðeins meira fansí og flott. Slóðin á nýja bloggið er:
http://ingolfursig.wordpress.com/

Þetta bloggsvæði verður opið eitthvað áfram en ég mun hins vegar ekki halda því við. Fljótlega verður því svo lokað.
Með bestu jóla- og bloggkveðjum
Ingólfur

19.12.08

Þær eiga afmæl´í dag, þær eiga afmæl´í dag.

Þær eiga afmæl´í dag, þær eiga afmæli afmæl´í dag. Þær eiga afmæli frænkur, þær eiga afmæl´í dag. Báðar þessar yndislegu krúsídúllur okkar, Aldís Agla Sigurðar- og Guðfinnudóttir (stóra stelpa er 5 ára) og Kamilla Sif Carls- og Laufeyjardóttir ( er ársgömul).
Fór á Landsann og sótti vottorðið frá Friðbirni um að ég sé óvinnufær um ótilgreindan tíma. Þarf að skila því á skrifstofuna í MK þannig að það virki frá 1. des.
Veikindarétturinnn minn virkar sem sagt þannig að ég á, eftir 12 ára starf 9 mánuði í veikindarétt. Ég er ekki alveg með á hreinu hvað ég er búinn að nota mikið af réttinum, þarf að tala við Sigríði skrifstofustjóra um það. Notaði líklega restina af október og allan nóv og des. Skoða þetta betur með Sigr. Hún er pottþétt með þetta á hreinu. auðvitað á ég að vera með þetta á tæru, búinn að vera trúnaðarmaður í nokkur ár og í samstarfsnefnd líka. En svona er þetta, þegar kemur að réttindafrumskóginum þá er maður fljótur að villast. Fór í Elkó og verslaði "gullskarttengin" fyrir Guðna. Keypti líka 2 Gb minniskort í símann minn og ryksugupoka í nýju ryksuguna. Brynja reddaði þessu með mjög fínum afslætti. Nú er bara að vona að hljóðið í sjónvarpinu hætti því þrátt fyrir afslátt kostuðu þessi 2 skarttengi ca 7 þúsund kall.
Fór í MK, nennti samt ekki í útskriftina í Digraneskirkju, ákvað að vera bara í deildinni og baka eins og vitlaus væri. Lagaði deig í lagterturnar hennar Laugu, bæði ljósa og dökka. Lagði svo ávexti í romm fyrir Stollen. Kannski get ég haldið eitthvað áfram með þetta á morgun en reikna samt með að gera a.m.k. Stollen á mánudaginn með ÁÞT. Settist að sjálfsögðu inn í sal og fékk mér snittur, kaffi og rjómatertu sem hefðbundið er að bjóða upp á eftir útskrift. Hitti auðvitað fullt af fólki þar eins og nærri má geta, t.d. Guðjón gamla húsvörð sem er alltaf gaman að hitta. Hann er nú aðeins farinn að láta á sjá karlinn enda kominn á sjötugsaldurinn. Kvartaði um að líklega þyrfti að fara að skipta um mjaðmakúlu hjá sér. Alltaf verið þægilegur að tala við og einn af þessum kynlegu kvistum sem skreyta í kringum sig þótt ekki sé hann óumdeildur frekar en sumir aðrir sem teljast meiri spámenn. Þegar ég keyrði heim frá MK um kl. 17 skal ég játa að ég var farinn að lýjast. Kom við heima og skipti um föt. Við Laufey Sif og Kamilla Sif fórum saman í afmælisveisluna hjá Aldísi Öglu en Birna ætlaði að koma beint úr vinnu þangað. Bjarni Grétar og Beta ætla að koma þangað aðeins seinna. Fínasta boð þar, pylsupartí + kökur og tertur. Ég bætti að sjálfsögðu á mig þarna þrátt fyrir að ég vissi af matnum hjá Atla og Brynju eftir smá stund (merkilegt hvað meður getur borðað þessa dagana;). Tók 2 rjúpur hjá Ella á leiðinni úr afmælinu (gjafarjúpur frá Ásgeiri hennar Rögnu). Hengdi þær upp á svalir við hliðina á frænkum þeirra sem þegar hanga á svölunum (nú eru þær 12).
Fórum í langþráð get togather hjá Atla og Brynju eftir afmælisveisluna hjá Aldísi Öglu. Löbbuðum yfir í Viðarrimann í frábæru jólaveðri. Ætluðum varla að nenna inn til Gestgjafanna en létum okkur hafa það fyrir rest;-) Vorum búin að ákveða, til að minnka fyrirhöfnina, að borða Tikka masala frá Austurlandahraðlestinni í Spönginni. Mjög góður matur, Atli var búinn að kaupa flösku af Gammel Dansk (sem betur fer) tókum 3 G að sjálfsögðu, nema Brynja er löglega afsökuð í þessu máli. Slógum á þráðinn til Svíþjóðar og töluðum pottþétt í klukkutíma við HF og Anders, tókum síðasta G í beinni og sungum fyrir Anders að sjálfsögðu. Við Atli ræddum mikið um súkkulaði og tengda hluti og er ýmislegt á prjónunum þar sem ekki er tímabært að ræða núna. Á örugglega eftir að koma því hérna að síðar. Við röltum heim um kl 12 í ekki síðra veðri en við komum í. Vorum leyst út með þannig gjöfum að það tók verulega í að halda á pokanum heim. Það segir nú kannski ýmislegt um mig og mitt úthald þessa dagana að ég þurfti að fá Birnu til að halda á pokanum seinni hluta leiðarinnar. Þegar við komum heim fór ég út með Vask í stuttan göngutúr. Kamilla Sif og Laufey komu og heilsuðu upp á okkur. Gjöfin frá okkur og Helgu (mömmu Kalla og systrum) var á gólfinu þegar við komum. Haukur, kærasti Helgu, hafði séð um að kaupa gjöfina, Britax barnabílstól upp að 11 ára. Haukur er í góðum tengslum við Sjóvá gegnum fyrirtæki sitt

18.12.08

Bænir í stað jólakorta í ár.

Þetta er að komast í vana á morgnana að byrja á að taka til í hafragrautinn, hendast svo út í jólasnjóinn með Vask kl. 7, taka einn labbhring, keyra út í bakarí ef þörf er á (Bakarameistarann við Húsgagnahöllina) kaupa eitthvað gott brauð og (algjör skylda) 2 - 3 múslístangir nammi. Síðan taka góðan tíma í að sópa snjóinn af ÖLLUM bílunum okkar og svo er bara að drífa sig inn að borða morgunmatinn og lesa blöðin með spúsunni sem yfirleitt er komin niður og búin að gera sig sæta þegar þarna er komið sögu. Morgunmaturinn í kyrrðinni er enn sem fyrr mín uppáhaldsmáltíð
Átti tíma hjá Friðbirni kl. 11:20 ætlaði að vera mættur í blóðprufu klukkutíma fyrr. En steinsofnaði (að skipun Laufeyjar) kl. 9:30 og vaknaði ekki fyrr en kl 11. Brunaði niður á Landsa og hringdi í Birnu á leiðinni. Hún ætlaði að koma með mér að hitta Friðbjörn. Hittum hann á réttum tíma og áttum mjög góðan fund með honum. Við ákváðum í samráði að taka okkur 2 vikna frí frá öllum lyfjagjöfum og hittast aftur ca viku af janúar. Ræddum óvenju mikið um horfur og slíkt og það var mjög gott. Ekki eins og það sé mikið hægt að spá í þessa sérstöku kristalskúlu en samt gott að fara öðru hverju í gegnum hlutina hreinskilinslega. Ég fékk síðan tíma aftur 8. janúar kl. 12 og geri þá ráð fyrir að fara í lyfjagjöf. Fór í blóðprufuna að þessu loknu og sé bara til hvort Friðbjörn hringir niðurstöðurnar til mín eða hvort ég sé þær þegar ég hitti hann í janúar. Fór í OG Vodafón og fékk nýjan afruglara eins og Guðni í Elkó var búinn að biðja mig um að gera. Kom reyndar í ljós þegar strákarnir (Kalli og Bjarni) voru búnir að tengja hann rétt þá er sama hljóðið í sjónvarpinu;-( Á morgun ætla ég í Elkó og kaupa gullskarttengisnúrur. Ef það virkar ekki þá tala ég aftur við Guðna með tveimur hrútshornum. Bjarni kláraði að "setja gestasalernið saman aftur eftir málunina" og þetta kemur reglulega vel út hjá honum. Efnilegur málari á ferðinni þar. Fór upp í MK og hitti loksins á Margréti, búinn að reyna lengi að ná tali af henni. Hún var mjög jákvæð enda má segja að allt hafi gengið eins og best gat orðið miðað við aðstæður. Ásgeir Þór og Ásthildur hafa í sameiningu leyst öll kennslumálin ótrúlega vel og ég held að allir þræðir séu vel hnýttir. Ég fékk sms frá Kristínu hans Flosa á Flugustöðum og ákvað að hringja í hana frekar heldur en far að svara sms-inu. Þegar Kristín svaraði kom í ljós að þau voru á leið á Djúpavog í matarboð til Stefu og Ninna. Stefa er dóttir Sigga Albertssonar heitins frænda míns (hálfbróðirs ömmu Stefaníu). Það var gaman að spjalla við Kristínu og allt gott að frétta úr sveitinni. Við Birna fórum í bæinn kl 19, lögðum fyrir framan Kjörgarð og löbbuðum niður Laugarveginn. Fórum inn í búð sem heitir Moods of Norway. Ég sá gegnum gluggann að Henry Reynisson bakari stóð við afgreiðsluborðið enda kom í ljós að hann rekur þessa búð ásamt vinum sínum. Ferlega flott búð með flottum vönduðum vörum framleiddum í skandinavíu. Eða eins og stóð innan í einum jakkafötunum sem kostuðu reyndar 90 þúsund kall "Made in scandinavian by some serius hot girls". Löbbuðum áfram niður eftir (vorum farin að svengjast) og fórum inn á veitingastað þar sem áður var "Leggur og skel" en heitir nú - ja skritið en satt - Scandinavian smörrebröd;-) Fengum okkur H.C Andersen brauðsneið, camenbert og bacon brauðsneið og raupssprettusnittu. Þessu skoluðum við að sjálfsögðu niður með bjór og Gammel Dansk. Skemmst er frá því að segja að þetta bragðaðist allt saman afbragðs vel og fórum við södd og sæl út í jólaskæðadrífuna sem nú var boðið upp á á Laugarveginum. Gengum inn í Dómkirkjuna en Anna Sigríður hafði sagt okkur frá því að alla fimmtudaga milli 20 - 22 er þar bænastund. Komum við í 10 -11 fyrst til að kaupa Ópal í munnin. Held að Birna hafi ekki viljað anga af Gammel í Dómkirkjunni. Það var ofsalega notalegt að sitja þarna, kveikja á kertum og láta hugann reika. Löbbuðum svo bara aftur upp eftir komum við í Nýlenduvöruverslun Hemma og Valda (Valdi er bróðir Rakelar svilkonu) þar sem ég fékk mér bolla af kakói með rjóma. Það hefði nú bæði mátt vera bragðmeira og heitara enda viðurkenndi "kaupfélagsstjórinn" að hann hefði gleymt mér "aðeins" eins og hann orðaði það. Við hittum Regínu vinkonu Laufeyjar þarna inni og svo droppaði sjálf Lay-Low inn á meðan við vorum þar, greinilega heitur staður. Þegar heim var komaið var Laufey Sif búin að baka stóran skammt af skinkuhornum fyrir afmæli Kamillu Sifjar sem halda á upp á á sunnudaginn. Mér skilst á LSI að það eigi að bjóða milli 80 og 90 manns.... bilun.
.
þarf að fara á Landsann og sækja vttorðið frá Friðbirni.
Kaupa gullskarttengisnúrur í Elkó
Mamma ætlar að koma á morgun í tiltekt

17.12.08

Frúin hlær í betri bíl - frá bílasölu .......;-)

Verð að passa mig á að vera ekki svona lengi fram eftir á nóttunni að vesenast, blogga, lesa o.þ.h.
Vaknaði kl. tæplega 7 í morgun eftir alltof lítinn svefn. Fór niður í morgun þar sem ég gat ekki sofið, dreif mig í föt og út með Vask. Veðrið var eins og í ævintýri. Púðursnjór á jörðu, fastastilla og svo jólalegt að það vantaði bara Betlehemstjörnu á skallann á mér og allt hefði verið fullkomnað. Labbaði með Vask út í holtið og honum leiddist ekki. Svo sópaði ég snjóinn af öllum bílunum (þessi bílafloti fjölskyldunnar er nú að verða klikkun). Bens, Volvo, Reunault, Golf, Yaris og Subaru, af hverju á Kamilla Sif engan bíl.....??
Reyndi að vinna skipulega niður listann minn, byrjaði á að fara niður á Landsspítala og keypti stóra lyfjaboxið sem Laufey hjálpaði mér svo seinna um daginn við að raða lyfjunum mínum upp á nýtt í. Næst var peysan frá mömmu á dagskrá, fór niður á Skólavörðustíg, fann handprjónamarkaðinn eftir leiðbeiningar frá múttu. Ég lagði hvítu peysuna inn hjá þeim og mátaði fyrst 2 grænleitar peysur en það var síðan blá + fleiri lita hneppt peysa sem valdi mig og málið var dautt. Ég er ótrúlega ánægður með valið, hef ekki átt svona fallega lopapeysu fyrri, allavega ekki síðan tengdamamma prjónaði á mig peysur í gamla daga, hún var og er mjög flink við þetta.
Náði loksins að muna eftir að fara í Tímadjásn í Grímsbæ og kaupa keðju á krossinn minn frá mömmu. Veit ekki hvað er langt síðan keðjan slitnaði. Fór svo í MK eftir hádegið, langt síðan ég hef farið og var búinn að tala um það við ÁEG að ég kæmi kannski í dag (það var einkunnaafhending, prófsýning, val o.þ.h.) við þurftum náttúrlega hvorugt að vera þannig lagað séð (hvorugt okkar með umsjónarnema núna) en gott fyrir hana að sjá hvernig þetta virkar. Hitti líka fullt af fólki sem var mjög gaman. Held ég sé að renna á rassinn með að fara að standa í bakstri á stollen, lagtertum o.þ.h. held ég meiki það bara ekki. Það er morgundagurinn, ef ég verð hyberhress þá kannski gerist eitthvað við sjáum til. Ég á reyndar mjög erfitt með að sjá fyrir mér jólin án míns eigins Stollen með góði hangikjöti (er maður klikkaður eða stórklikkaður). Tveir góðir áfangar náðust þó í dag. Elli bróðir hringdi í mig með þeim afleiðingum að ég keyrði til hans í vinnuna og sótti ......... jíbbijei snjóhvítu rjúpurnar 10 sem hann er búinn að redda fyrir aðfangadagskvöld. Borgum 1500 kall fyrir stykkið en gerum það með bros á vör alíslenskar berjalyngsrjúpur (slurp og slef). Á eftir að fá 3 stk til viðbótar sem við vorum búin að fá gefins þannig að það er jafnvel búið að redda restmáltíð í tartalettum líka;-) Hinn áfanginn er sá að Bjarni Grétar tók að sér að mála gestasalernið í hólf og gólf og honum sækist það mjög vel. Búinn að fara tvær umferðir yfir veggi og loft og eina yfir gólfið, ætlaði að geyma seinni umferðina til morguns en er nú búinn að taka þá bráðskynsamlegu ákvörðun að mála hana núna áður en hann fer að sofa. Þá þornar þetta í rólegheitum í nótt og hann á þá bara eftir að skrúfa herbergið saman aftur á morgun;-) Ég mundi líka eftir að fara í Apótekið á landsspítalanum til að kaupa stærra lyfjabox fyrir lyfin mín. Laufey Sif hjálpaði mér svo að raða lyfjunum upp á nýtt miðað við að nú hef ég fleiri hólf (fleiri pilluátstíma) upp á að hlaupa.

16.12.08

Aðal- og aukaleikarar - "Annars verður mér að mæta!"

Jæja sit hér við morgunverðarborðið kl. 9. og blogga (hljómar eitthvað svo cool). Birna og Laufey Sif farnar í vinnu og Kamilla Sif komin til dagmömmu. Carl kominn á ról, er að undirbúa sig við að fara að að læra undir rekstrarfræði sem er síðasta prófið hans í HÍ (allt tekur enda) Prófið er á fimmtudaginn og hann er að fara að ljósrita eitthvað sem hann vantar fyrir undirbúninginn. Bjarni Grétar er sofandi (var í einhverju pókerspili með vinum sínum fram eftir í nótt). Hann er með það verkefni á höndum í dag að mála gestasalernið sem ekki hefur verið málað síðan af fyrri eigendum hússins okkar. Þess vegna ætla ég ekki að gefa honum nema svona til kl. 10 - 11 í bælinu;-( Ég veit ég er alltaf að endurtaka mig en það er ólýsanlega notalegt að vera hérna heima í rólegheitunum. Kalli er kominn niður í morgunmat, fínt að fá félagsskapinn. Ég var að hugsa mikið um fólk, vinskap o.fl. í gærkvöldi þar sem ég sofnaði frekar seint. Önnu Sigríði varð (í gær) tíðrætt um tengslanetið okkar, þ.e.a.s. hvað við eigum mikið af góðu fólki í kringum okkur. Það er nú þannig að maður tekur svoleiðis hlutum alltof sjálfsögðum. Stundum er sagt í gríni "þú velur þér vini en þú ræður engu um það hvernig fjölskyldu þú færð". Þegar börnin manns fara að slá sér upp og "aukaleikendur" (þau byrja nú þannig þessar elskur), fara að koma inn á heimilið. Maður gleymir oft hvað það er erfitt að koma svona inn í nýja fjölskyldu og reyna að fóta sig jafnvel í samkeppni við aðra "aukaleikara". Ég held samt að það sé best að taka þessum krökkum bara af virðingu og þægindum, vera ekkert með of mikil afskipti en reyna að koma til skila ákveðnum boðum. Ég er alla vega ánægður með þessar elskur sem eru á heimilinu okkar núna.
Ég man alltaf eftir því sem mig minnir að sé eina skiptið sem tengdapabbi minn heitinn lagði mér heilræði varðandi samband mitt við Birnu mína. Þá vorum við staddir í veiðiferð á Arnarvatnsheiði, hvar er betri vettvangur fyrir heilræðagjöf. Bjarni (tengdó), Sævar (vinur hans og mágur) og ég nýgræðingurinn og bílstjórinn í ferðinni:-) Þá man ég að Bjarni sagði að ég væri, eins og hann sjálfur varðandi Grétu, heppnasti maður í heimi með að hafa krækt í Birnu. Þær væru svo líkar á margan hátt. Svo kom það: "Þú verður gefa mér bara eitt loforð, að vera alltaf góður og heiðarlegur við Birnu mína annars verður mér að mæta". Þetta var sagt í þéttum góðlátlegum tón undir "mjúkum kringumstæðum" og það skilaði sér fullkomlega. Það er ekki eins og það hafi þurft stórátak af minni hálfu að efna þetta loforð gegnum árin, (ég vona að mér hafi tekist það í það minnsta í aðalatriðum). Allir sem þekkja Birnu mína vita fyrir hvað hún stendur. Lilja frá heimahlynnningunni kom kl. 11 og hjálpaði mér með að koma betra skipulagi á lyfin mín. Við fjölguðum lyfjatímum úr 3 í 4 og ég þarf þar með að kaupa nýtt box með fjórum hólfum pr/dag. Held að þetta verði miklu jafnara og betra svona. Óþægilegt að vera að taka allt upp í 13 töflur í hvert skipti;-( þegar það er ekki endilega nauðsynlegt. Heimahlynningin kemur næst á Þorláksmessu, þriðjudaginn 23. des kl. ca 11 (muna það). Fór á flandur og kláraði smáerindi sem höfðu safnast upp óafgreidd. Fór og skipti afmælisbókum (veit, eða a.m.k. vona, að ég móðgi engan með því). Skipti bókum frá Sigga og Guffu (John Grisham) og Sigurjóni og Kristínu (Saga forseta). Tók í staðin nýju bækurnar eftir Stefán Mána (Ódáðahraun), Yrsu (Auðnin) og Árna Þórarinsson (Sjöundi sonurinn), allt bækur af óskalistanum mínum þannig að ég er í hrikalega góðum lestrarmálum á næstu vikum:-) Fór í Glóey og keypti slatta af ljósaperum sem vantaði víða um húsið. Það þarf nú eitthvað að fara að skoða verðlagningu á ljósaperum held ég, 11 ljósaperur á tæplega 14 þúsund krónur er ekki í lagi að mínu mati. Ætlaði næst að bruna á Skólavörðustíginn í prjónabúðina þar sem mamma keypti hvítu ullarpeysuna sem hún gaf mér. Peysan er æði en mér finnst hún kannski heldur stór svo ég ætlaði að skoða hvort ég sæi eitthvað sem passaði betur en þá hringdi strákurinn úr Elkó (Guðni) og sagðist verða í Berjarimanum eftir 10 mínútur svo það var ekki um annað að ræða en bruna upp eftir. Niðurstaðan varð sú að byrja á að skipta út afruglaranum og skarttengjunum, líklegast að aukahljóðið tengist afruglaranum. Laufey Sif er búin að panta pössun fyrir KSC í kvöld, ætlar að borða með vinkonum sínum á Horninu. Þær hafa haft þetta fyrir sið að í staðin fyrir að gefa hvor annarri jólagjöf þá gera þær þetta. Mér finnst þetta þrælsniðugt. Ég ákvað að elda spaghetti Bolognese a l´a Ingó. Ég er búinn að vera með extra mikla matarlyst undanfarna daga og um að gera að nýta sér það. Ég borðaði hrikalega mikið (sem er bara fínt, ekki veitir af). Hlustaði á Atla vin minn í útvarpinu seinni partinn í dag þar sem rætt var við hann um nýtt markaðsátak Nóa Síríusar á bakara- og stóreldhúsamarkaðinn. Einnig var talað við Steina vin minn í "Okkar bakarí" en hann hefur verið frumkvöðull í að taka inn súkkulaði frá Nóa og aðlaga í framleiðsluna þeirra. Þeir eru komnir með tertur og kökur þar sem sérstaklega er gert út á hið sérstaka og sígilda bragð af Nóa súkkulaði sem íslendingar elska. Mér finnst ég eiga svolítið í þessu framtaki, hef lengi róið í bæði Atla, Steina og fleirum varðandi þetta mál. Þótt mikið sé til af góðu súkkulaði á markaðnum þá hefur það alltaf pirrað mig sem fagmann að N.S. skuli ekkert hafa sinnt þessum markaði (nú eða öfugt, menn verða svo sem líka að bera sig eftir björginni). Veit að Atli er ánægður með að þetta er komið af stað, ég vona bara að hann fái verðskuldaðan stuðning við þetta mál hjá N.S., hann er virkilega búinn að hafa mikið fyrir þessu máli. Birna kom fyrr heim en hún ætlaði sér, bæði var hún hálfslöpp en einnig vegna pössunarinnar sem var fyrirhuguð. Kamilla Sif var reyndar þæg sem lamb og allt gekk vel fyrir utan það að krakkinn gerði heiðarlega tilraun til að hengja sig í silfurhálsmeninu sínu. Náði einhvern vegin að krækja keðjulásnum í eina sylgjuna á gönguskó afa síns og allt í einu heyrði amman skrítin hljóð úr barnsbarka og sá sér til skelfingar að KSC var dragandi heljarinnar fjallaskó undir hálsinum á sér. Amman sýndi snarræði, sleit keðjuna og lífi barnsins var þar með bjargað;-) Heyrði í Sigga bró um kvöldmatarleytið, var á leið á hljómsveitaræfingu, held að þeir séu að meika það fyrir alvöru núna. Hann lýsti fyrir mér að þeir hefðu, á síðustu æfingu, náð að æfa öll þrjú flottu lögin með Dooby brothers með röddun og ÖLLU. Ég efast reyndar ekkert um að þetta sé mjög skemmtilegt hjá þeim. Allt músikalskir strákar (á besta aldri), búnir að koma sér upp ágætis búnaði og aðstöðu - ÖRUGGLEGA BARA GAMAN! Ég heyrði svo líka í Atla aftur í kvöld en þá voru nú heldur leiðinlegri fréttir. Mamma hans (97 ára) hafði verið að koma úr Bónus (hópferð með rútu frá elliblokkinni) og stóð með pokana sína fyrir utan rútuna þegar hún datt svona illa í hálkunni og mjaðmargrindarbrotnaði. Hrikalegt! Það má búast við að það geti orðið lengi að gróa.

15.12.08

Home sweet home!

Átti frekar ónæðissama nótt. Herbergisfélagi minn var í einhverjum vandræðum með skammtarann sinn og hann pípti stöðugt. þetta var nú mest til sjálfum mér að kenna. Félaginn var búinn að vara mig við því að hann svæfi fyrri hluta næturinnar í Lazy Boy stólnum í setustofunni vegna verkja. Síðan væri hann vanur að færa sig yfir inn í rúm. Auðvitað átti ég að einbeita mér að því að sofa meðan hann var í setustofunni. En ég var eitthvað upprifinn eftir þessa frábæru Karlakórstónleika og fór bara að lesa. Svo loksins þegar ég var nýsofnaður þá kom félaginn með pípandi tækið sitt og ég vaknaði á 20 múnútna fresti eftir það. Fór að blogga snemma í morgun frekar heldur en að telja kindur og las áfram í Sólkrossinum. Fínasta bók sem heldur mér ágætlega við efnið. Friðbjörn læknir kom og spjallaði lengi við mig. Ákveðinn í að útskrifa mig en vill að ég komi á fimmtudaginn í viðtal eins og um var talað og með ferska blóðprufu með mér. Ekkert mál! Gengið frá nýju lyfjakorti. Mikil pressa kom allt í einu frá bráðamóttökunni að fá rúmið mitt til afnota þannig að ég hringdi snarlega í Bjarna Grétar og sagði honum að ég væri tilbúinn og hann mætti koma og sækja mig. Svo var bara að pakka því litla niður sem ég var með. Fór í apótekið (einu lyfinu bætt við) og sótti mér viðbót á orkudrykki og built-up. Svo kvaddi ég starfsfólkið og við Bjarni fórum heim. Mikil lifandis skelfing var gott að koma heim. Séra Anna Sigríður varð ljúflega við beiðni um að koma til okkar og ræða málin varðandi veikindin, lífið og tilveruna. Hún sat hjá okkur hátt á annan klukkutíma og það var bara indælt og gott. Hún er bara svo frábær og þekkir okkur orðið svo vel og okkar sögu. Ég uppgötvaði allt í einu að nú koma lyfin ekki bara til mín þegar ég á að taka þau heldur þarf ég að bera mig eftir þeim. Var búinn að steingleyma svoleiðis smámunum. Sem betur fer kom Laufey Sif ákkúrat heim í þann mund sem éga var að fara að byrja að taka lyfin til í boxið mitt. Hún er svo ansi röggsöm í þessu og klár. Við vorum eldsnögg í þessu saman, aðallega hún samt. Mamma kom við, var á leið til Rúnu frænku. Hræðilegt áfall hjá henni að koma að syni sínum látnum í gær en segja má að þar sé líka hugsanlega ákveðinn léttir á ferð þar sem hann hlýtur að hafa verið orðinn lúinn á streði í baráttunni við fíkniefni í mörg undanfarin ár. Mannlegt eðli þolir bara ákveðið og einhvern tíman fá menn nóg. Birna fór í aðventusaumó hjá Fjólu, stelpurnar eiga að koma með gjöf með sér og nú á að hafa það huggulegt. Gott hjá þeim. Sendi Bjarna á KFC til að kaupa kvöldmatinn, át eins og ég hefði ekki fengið að borða í viku. Brynja hringdi til að minna mig á að á morgun á ég að hringja í Guðna í Elko og láta laga aukahljóðið í sjónvarpinu. Lesið í maraþoni í Sólkrossinum núna. Spennnan magnast.
Birna komin heim úr saumó alsæl. Fékk einhvern voða dúllulegan kertastjaka í "jólagjöf" Góða nótt.

Friður á jörðu

Enn einn morguninn vakna ég í sæluvímu eftir frábæra upplifun á menningarsviðinu frá kvöldinu áður. Aðventutónleikar Karlakórs Reykjavíkur í Hallgrímskirkju eru fyrirbæri sem ég á nú að vera orðin vanur án þess að vera í andköfum. Ég er búinn að taka þátt í þessu sem kórmaður í það mörg ár og alltaf fundist þetta jafn gaman. Vortónleikar KR eru alltaf skemmtilegir en aðventu-tónleikarnir hafa skapað sér sess meðal þjóðarinnar sem ómiss-andi þáttur í aðdraganda jólanna. Segja má að Karlakórinn hefji þessa lotu með því að syngja í aðventumessu 2. sunnudag í aðventu. Fjórum sinnum fyllir kórinn svo Hallgrímskirkju (4 sinnum, þetta stóra volduga hús). Það var troðfullt hús í gærkvöldi og reynda var þannig á öllum tónleikunum. Það þurfti að setja stóla ansi víða en mér sýndist þó að þokkalega færi um tónleikagesti. Stjórn kórsins var svo elskulega að bjóða mér og fjölskyldunni á lokatónleikana og tók frá sæti fyrir okkur á fremsta bekk. Sátum þar í góðu yfirlæti með fjölskyldu Friðriks kórstjóra, Bjarni Færeyjingur og fólk á hans vegum. Það var mjög gaman að prófa að sitja svona á fremsta bekk og upplifa nálægðina og aflið sem þessi kór býr yfir. Kórinn byrjaði á að ganga inn kirkjuna syngjandi Alta trinita beata, alltaf tilkomumikið. Kórinn hélt síðan áfram söngnum skiptur og kallaðist á í Ave Maria eftir Franz Biebl. Þessa Maríu hef ég ekki sungið svo ég muni, mjög falleg. Eftir það rann kórinn í hefðbundna uppstillingu undir orgelinu og aðventulögin runnu hvert eftir annað. Allt vel gert. Sveinn Dúa Hjörleifsson söng einsöng með kórnum í Panis angelicus og strax á eftir í Ave Maríu Schuberts (ótrúlega áreynslulaust og vel sungið). Sveinn er að þroska með sér þéttleika og öryggi í röddina sína og það heyrist vel. Ásgeir Eiríksson steig fram og söng Ó helga nótt af sinni alkunnu snilld og smekkvísi. Samkvæmt dagskrá átti hann að syngja Agnus Dei strax á eftir en því var sleppt. Ég frétt það eftir tónleikana að hann væri lasinn í hálsinum og það getur alltaf komið fyrir. Við sem hlustuðum á hann syngja Agnus Dei í vor munum vel eftir þeirri snilld. Sveinn Dúa kom svo aftur fram og tók tvö lög í viðbót tónleikagestum án efa til mikillar gleði. Lögin sem Sveinn söng voru Friður á jörðu eftir Árna Thorsteinson og Ave María eftir Kaldalóns.
Þessi lög voru sungin af ótrúlegri næmni og hittu fólk beint í hjartastað. Ég heyrði verulega mikið snökkt allt í kringum mig. Ég hitti Svein eftir tónleikana og ég sagði við hann að hann hefði skellt mér á magann í mitt Kaldalónið, ég fór að grenja eins og kjelling. Þannig var nú það. Svenni hló nú bara og sagði að það væri allt í lagi ég hefði hvort sem er alltaf verið kjellling;-)