30.11.08

Aðventan og seríur

Notaði fallega veðrið í dag til að setja upp jólaseríur á svalir og sólpall. Mjög gott að vera búinn að því þótt kalt væri.

29.11.08

Aðventa og verslun

Byrjuðum verslunarferðina á því að fara í veiðibúð upp á höfða og keyptum gjafabréf sem við vinahópurinn vorum búin að ákveða að gefa Omma í fimmtugsafmælisgjöf en hann átti afmæli 21 nóv. Gjöfin var að sjálfsögðu ákveðin með tilliti til þess að hann er mikill áhugamaður um stangaveiði eins og sjá má á meðfylgjandi mynd úr Leirvogsá. Ormur Helgi með fallegan lax úr Leirvogsá

Þess má geta að Ormur er sá fyrsti í hópnum sem rífur 50 ára múrinn. Þegar Ólafur í veiðibúðinni var búinn að útbúa þetta fína gjafabréf fórum í Elkó og skelltum okkur á 42 " plasma sjónvarp. Við vorum búin að fara marga hringi áður en við ákváðum okkur hvernig tæki við ætluðum að kaupa. Það segir náttúrlega heilmikið um hvað við erum mikið tækjafólk. Það var á endanum hún Brynja vinkona okkar sem tók af skarið og gaf okkur góð ráð sem við létum ráða ferðinni. Þetta er þýskt tæki sem heitir LG og lítur út fyrir að vera rosalega "svalt". Fórum svo niður á bakka (vöruhótel) og sóttum tækið. Því næst héldum við sem leið lá í Garðabæinn, nánar tiltekið í IKEA til að finna heppilegt borð undir sjónvarpið. Hjá okkur háttar nefnilega þannig til að við getum ekki hengt græjuna upp á vegg sem er eflaust langheppilegasta lausnin með þessi þunnu tæki. Ekki fundum við neitt borð sem okkur hugnaðist svo við ákváðum að láta þetta bíða, brunuðum til Ástu og Omma til að afhenda kallinum 50 ára afmælisgjöfina. Þau voru hin hressustu enda nýkomin heim frá Tenerife sem var "surprise" ferð frá Ástu til gamla kallsins;-)
Þegar við svo komum heim uppgötvuðum við okkur til lítillar gleði að við höfðum fengið afgreitt vitlaust sjónvarpstæki á vöruhótelinu. Það veður lagað á morgun;-(

28.11.08

Aðventutónleikar KK og Ellen

Fórum á fína tónleika með þeim systkinum KK og Ellen í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Ein af vinnufélögum Birnu var svo elskuleg að gefa henni miða sem hún gat ekki notað. Þetta voru aðventutónleikar en samt blönduðu þau saman við nokkrum lögum af nýju plötunni hans KK.

27.11.08

Lyfjameðferð og bakarapróf

Byrjaði daginn á að fara í blóðprufu á LSH. Fór síðan upp í MK til að dæma lokaprófið hjá seinni helmingi bakaranemanna. Þurfti að stinga af í hádeginu í viðtal hjá lækninum mínum. Eftir að hafa rætt niðurstöður blóðprufunnar frá því um morguninn tókum við ákvörðun um að ég færi í lyfjameðferð. Ég var búinn að vera talsvert á báðum áttum hvaða ákvörðun ég ætlaði að taka.
Hitti Friðbjörn og fór í lyfjagjöf.

Á að byrja á lyfinu Xeloda um kvöldið. Var rosalega tvístígandi með hvað ég átti að gera. Gera eins og læknirinn segir Jens;-Þ eins og ég hef alltaf gert eða gera eitthvað allt annað og óhefðbundið... úffff þetta er svo erfitt

26.11.08

Ljósið, baksturspróf o.fl.

Fór í langt og gott viðtal við Berglindi iðjuþjálfa í Ljósinu á Langholtsvegi. Ljósið er er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein / blóðsjúkdóma og aðstandendur þeirra. Ég er nýbúinn að uppgötva það frábæra starf sem þarna er unnið.

Fór síðan upp í MK en nú eru lokapróf í 2. bekk bakaradeildar. 3 nemar af 6 voru í 6 klst. prófi í dag og var ég að aðstoða við að dæma prófið. Seinni 3 nemarnir verða síðan í prófi á morgun.

25.11.08

19. hæðin . . . . góður matur . . en dýr.

Við hjónakornin ásamt vinahjónum okkar (þeim Atla og Brynju) fórum út að borða í hádeginu í dag í Turninn umtalaða þar sem matreiðslumaðurinn Sigurður Gíslason ræður ríkjum í eldhúsinu. Hádegisverðarsalurinn er staðsettur á 19. hæð og útsýnið er þ.a.l. vel yfir meðallagi. Boðið er upp á hádegisverðarhlaðborð og við vorum öll sammála um að maturinn var mjög góður í alla staði. Hins vegar fannst okkur verðið í hærra lagi (tæpar 3000 kr. fyrir manninn). Okkur finnst það of hátt verð fyrir hádegisverð þótt góður sé.

Heilsan fín í dag, stefni á að fara í MK á morgun og fimmmtudag til að dæma verkleg lokapróf í bakstri. Vona að það gangi allt upp.

24.11.08

Síðbúnir timburmenn . . . . eða hvað?

Vaknaði hálf slappur í morgun, magakveisa eða þess líkt. Birna var í fríi til hádegis en ég hékk í bælinu þar til hún var farin í vinnuna og drattaðist þá á lappir og fór með hundinn út í göngutúr. VaskurÞótt Vaskur væri búinn að væla lengi í mér að koma út var nú meginmarkmiðið að athuga hvort ég myndi hressast við að fara út. Ekki var það nú raunin, a.m.k. skánaði ég ekkert að ráði. Seinni partur dagsins fór nú mest í að hafa ofan af Kamilla Sif Carlsdóttirdótturdótturinni meðan mamman gerði herbergið þeirra íbúðarhæft að nýju.

23.11.08

Vel heppnuð árshátíð að baki

Ekki er hægt annað en vera ánægður með árshátíð HF sem haldin var á Hótel Selfossi í gærkvöldi. Maturinn var sérlega vel heppnaður ef miðað er við fjölda eins og þarna var. Í forrétt var reykt andabringa, í aðalrétt var boðið upp á Íslenskt lambakjöt eins og það gerist best og svo var súkkulaðikaka með kaffinu.
Starfsmenn voru duglegir að troða upp með heimatilbúin skemmtiatriði og mátti þar sjá nýjar hugmyndir í markaðsmálum, s.s. nýjar tillögur að heimasíðu fyrirtækisins. Hugtakið 50% starfshlutfall öðlaðist alveg nýja vídd í meðförum skemmtikrafta og loks kom á sviðið æði galdrakonuleg manneskja sem augljóslega naut aðstoðar að handan og kom þar ýmislegt í ljós sem fólk vissi ekki áður.

20.11.08

Tiltekt

Ég verð nú seint talinn til stórbloggara. Löng hlé á iðjunni hafa orðið til þess að bloggsíður hafa hætt starfsemi og þar með hafa færslur glatast. Gleymd aðgangs- og lykilorð koma einnig við sögu í þessu sambandi;-)
Stundum kemur það þó fyrir að ég rekst á gamlar færslur sem mig langar til að halda upp á og þetta er ein tilraun til þess. Ég ætla sem sagt að reyna að setja á einn stað (ef það er hægt) þær hugrenningar sem ég hef einhvern tímann séð ástæðu til að festa á bloggsíðu og sjá svo hvort ég hef eitthvað meiri stöðugleika nú til að blogga áfram en ég hafði þá............

10.11.08

Kominn heim ;-)

Jæja.
þá er maður kominn heim, útskrifaður af 10-E, að nýju og vonandi, vonandi verður þessi dvöl lengri en hinar fyrri.

5.11.08

Nýjasta þróun

Nýjustu sneiðmyndir frá 4/11 bornar saman við myndir fræa 15/8 sýna aukningu á fyrirferð hægra megin. Meinið hefur heldur versnað enda lítil lyfjameðferð verið í gangi. Hnútar í kviðvegg lóðrétt eru stærri en síðast. Virðist líka liggja í kviðvegg hægra megin.