11.2.04

Fjölmiðlafár

Afar athyglisvert hefur verið að fylgjast með fjölmiðlum undanfarna viku. Forstöðumaður Samfés sem eru samtök félagsmiðstöðva á Íslandi þurfti að "svara til saka" fyrir stjórnendum Kastljóss síðastliðið mánudagskvöld vegna þess að Samfés hafði sagt upp samningum við hljómsveitina Mínus varðandi spilamennsku á unglingadansleik. Tilefni uppsagnarinnar var blaðaviðtal í erlendu blaði þar sem Mínus-meðlimir upplýstu viðhorf sín til fíkniefna og fíkniefnanotkunar á vægast sagt sláandi hátt. Sem foreldri tveggja unglinga finnst mér ákvörðun Samfés til fyrirmyndar enda standa samtökin fyrir vímulausum skemmtunum og eðlilegt að velja skemmtikrafta sem geta talist heilbrigðar fyrirmyndir. Ég spurði mína unglinga hvað þeim fyndist um ákvörðun Samfés og þeim fannst greinilega mjög eðlilegt að neita þeim um að spila á umræddum dansleik. Þess vegna kom mér mjög á óvart hversu harkaleg viðbrögð stjórnenda Kastljóss voru gagnvart forstöðumanninum. Þau töluðu um tvískinnung Samfés þar sem samtökin höfðu boðið Mínusmönnum að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að umrætt blaðaviðtal væri ekki sannleikanum samkvæmt. Mér fannst hins vegar fullkomlega eðlilegt að fara fram á slíka yfirlýsingu, og í raun vel boðið af hálfu Samfés, þar sem algengt er að hljómsveitir markaðssetji sig með ýmsum "skreytingum" sem e.t.v. eiga ekki alltaf við rök að styðjast. Í kjölfar þess að hljómsveitarmeðlimir neituðu að skrifa undir yfirlýsinguna, en voru tilbúnir að skrifa undir aðra þess efnis að þeir ætluðu ekki að neyta eiturlyfja á umræddum dansleik (góðir strákar!), rifti Samfés samningum við hljómsveitina enda í raun ekkert annað í stöðunni ef litið er til þess sem samtökin standa fyrir. A þáttastjórnendur Kastljóss, sem er fréttatengdur þáttur í sjónvarpi allra landsmanna skuli taka svo augljósa afstöðu gegn ábyrgri afstöðu Samfés í jafn mikilvægu máli vekur upp spurningar um dómgreind þeirra og siðferði. Umræddur þáttur var talsvert í umræðunni á mínum vinnustað sem er fjölmennur framhaldsskóli og þar þykja forstöðumenn Samfés hafa tekið hárrétt á málum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli