29.11.08

Aðventa og verslun

Byrjuðum verslunarferðina á því að fara í veiðibúð upp á höfða og keyptum gjafabréf sem við vinahópurinn vorum búin að ákveða að gefa Omma í fimmtugsafmælisgjöf en hann átti afmæli 21 nóv. Gjöfin var að sjálfsögðu ákveðin með tilliti til þess að hann er mikill áhugamaður um stangaveiði eins og sjá má á meðfylgjandi mynd úr Leirvogsá. Ormur Helgi með fallegan lax úr Leirvogsá

Þess má geta að Ormur er sá fyrsti í hópnum sem rífur 50 ára múrinn. Þegar Ólafur í veiðibúðinni var búinn að útbúa þetta fína gjafabréf fórum í Elkó og skelltum okkur á 42 " plasma sjónvarp. Við vorum búin að fara marga hringi áður en við ákváðum okkur hvernig tæki við ætluðum að kaupa. Það segir náttúrlega heilmikið um hvað við erum mikið tækjafólk. Það var á endanum hún Brynja vinkona okkar sem tók af skarið og gaf okkur góð ráð sem við létum ráða ferðinni. Þetta er þýskt tæki sem heitir LG og lítur út fyrir að vera rosalega "svalt". Fórum svo niður á bakka (vöruhótel) og sóttum tækið. Því næst héldum við sem leið lá í Garðabæinn, nánar tiltekið í IKEA til að finna heppilegt borð undir sjónvarpið. Hjá okkur háttar nefnilega þannig til að við getum ekki hengt græjuna upp á vegg sem er eflaust langheppilegasta lausnin með þessi þunnu tæki. Ekki fundum við neitt borð sem okkur hugnaðist svo við ákváðum að láta þetta bíða, brunuðum til Ástu og Omma til að afhenda kallinum 50 ára afmælisgjöfina. Þau voru hin hressustu enda nýkomin heim frá Tenerife sem var "surprise" ferð frá Ástu til gamla kallsins;-)
Þegar við svo komum heim uppgötvuðum við okkur til lítillar gleði að við höfðum fengið afgreitt vitlaust sjónvarpstæki á vöruhótelinu. Það veður lagað á morgun;-(

Engin ummæli:

Skrifa ummæli